Innlent

Sænsk fjöl­skylda málaði yfir anti­k­rist við Grafar­vogs­kirkju

Bjarki Sigurðsson skrifar
Svona leit fáninn út þegar Guðrún kom mætti í kirkjuna um hádegisbilið.
Svona leit fáninn út þegar Guðrún kom mætti í kirkjuna um hádegisbilið. Grafarvogskirkja

Skemmdarvargar máluðu orðið „antichrist!“ (e. antikristur) á hinseginfána sem búið er að mála á gangstéttina fyrir utan Grafarvogskirkju. Sænsk fjölskylda bauðst til að laga fánann og bjargaði málunum á mettíma.

Í samtali við fréttastofu segir Guðrún Karls Helgudóttir, sóknarprestur í Grafarvogskirkju, að hún hafi átt leið hjá kirkjunni um hádegisbilið þegar hún kom auga á skemmdarverkið. Hún ætlaði ekki að trúa eigin augum þegar hún sá þetta.

„Fáninn hefur fengið svo góðar viðtökur síðan við settum hann upp. Þannig þetta kom mér verulega á óvart,“ segir Guðrún.

Hún var á leiðinni í kirkjuna að undirbúa sig fyrir hjónavígslu en með henni voru vinir hennar, sænsk fjölskylda, sem er í heimsókn á landinu. Þau höfðu ætlað sér að skoða kirkjuna á meðan Guðrún undirbjó sig.

Sænskir vinir Guðrúnar redduðu málunum.Grafarvogskirkja

„Þá spyr pabbinn hvort við séum ekki með málningu og pensla. Ég trúði honum ekki alveg fyrst en þau máluðu öll saman yfir þetta. Hálftíma seinna var búið að laga fánann,“ segir Guðrún.

Skemmdarverk hafa ekki verið gerð við Grafarvogskirkju áður en Guðrún segir að þetta muni einungis efla starfsfólk kirkjunnar til að hafa fánann þarna. Nóg sé til af málningu og því geti ekkert stoppað þau.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×