Erlent

Sex ára stúlka og foreldrar hennar skotin til bana á tjaldstæði

Eiður Þór Árnason skrifar
Hjónin Tyler Schmidt og Sarah voru á ferðalagi ásamt börnum sínum Arlo og Lulu. Ljósmyndin var tekin þegar þau voru á göngu nærri Cedar Falls í Iowa þann 23. júlí síðastliðinn.
Hjónin Tyler Schmidt og Sarah voru á ferðalagi ásamt börnum sínum Arlo og Lulu. Ljósmyndin var tekin þegar þau voru á göngu nærri Cedar Falls í Iowa þann 23. júlí síðastliðinn. AP/Skyldmenni Schmidt fjölskyldunnar

Sex ára gömul stúlka var skotin til bana ásamt foreldrum sínum í Iowa í Bandaríkjunum fyrir helgi. Fjölskyldan var í útilegu í Maquoketa Caves þjóðgarðinum þegar voðaverkið átti sér stað.

Að sögn lögreglu fundust lík hinna 42 ára gömlu Sarah og Tyler Schmidt og dótturinnar Lulu í tjaldi þeirra á föstudag. Níu ára sonur hjónanna sem var með í för lifði árásina af. 23 ára gamall karlmaður er grunaður um verknaðinn. Lögregla fann lík hans í sama þjóðgarði en talið er að sá hafi tekið eigið líf eftir að hann banaði fjölskyldunni.

Fram kemur í frétt BBC að rannsókn málsins standi enn yfir. Mitch Mortvedt, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglunnar í Iowa, sagði í samtali við staðarmiðil að engar tilkynningar hafi borist um átök milli fórnarlambanna og grunaða árásarmannsins áður en hann lét til skarar skríða. Sá hefur verið nafngreindur sem Anthony Orlando Sherwin og er sagður hafa gist á sama tjaldstæði og fjölskyldan.

Safna peningum fyrir drenginn

Lík fórnarlambanna fannst á föstudagsmorgun og voru viðbragðaðilar kallaðir á staðinn klukkan 06:23 að staðartíma. Þjóðgarðurinn var rýmdur í kjölfarið en þá var talið að hætta gæti enn stafað af honum. Eftir leit úr lofti fannst lík hans í nokkurri fjarlægð frá tjaldstæðinu.

Fjármunum er nú safnað á söfnunarsíðunni GoFundMe til að hjálpa níu ára syni hjónanna sem lifði árásina af. Hátt í 150 þúsund Bandaríkjadalir höfðu safnast síðdegis í gær sem samsvarar um tuttugu milljónum íslenskra króna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×