Enski boltinn

Ten Hag segir lífsnauðsynlegt að hann fái fleiri leikmenn

Sindri Sverrisson skrifar
Erik ten Hag og hans menn eru í Ástralíu þar sem þeir undirbúa sig fyrir komandi keppnistímabil sem hefst eftir rúmar tvær vikur.
Erik ten Hag og hans menn eru í Ástralíu þar sem þeir undirbúa sig fyrir komandi keppnistímabil sem hefst eftir rúmar tvær vikur. Getty/Ash Donelon

Manchester United hefur fengið þrjá nýja leikmenn í sumar en nýi knattspyrnustjórinn Erik ten Hag segir það lífsnauðsynlegt að þeir verði fleiri.

United hefur í sumar fengið danska miðjumanninn Christian Eriksen, hollenska bakvörðinn Tyrell Malacia og argentínska miðvörðinn Lisandro Martinez. Betur má ef duga skal að mati Ten Hag sem segist reyndar „mjög ánægður“ með miðju- og sóknarmenn United en óttast að breiðari hóps sé þörf á löngu og ströngu keppnistímabili.

„Við fengum Eriksen á miðjuna og ég er mjög ánægður með það. Ég er mjög ánægður með frammistöðuna á miðju og í sókn í augnablikinu.

En ég veit líka að á þessu tímabili verða margir leikir, heimsmeistaramót, svo að við þurfum fleiri kosti. Við erum með gott lið en við þurfum góðan hóp til að geta náð réttum úrslitum til loka keppnistímabilsins,“ sagði Ten Hag.

Antony, kantmaður Ajax sem Ten Hag stýrði áður, hefur til að mynda ítrekað verið orðaður við United í sumar. Hollendingurinn var spurður enn frekar út í það hvort United skorti fleiri valkosti í sóknarleiknum.

„Það er ein ástæða en líka fjöldi leikja. Við þurfum fleiri kosti í sókninni. Ég held að það sé lífsnauðsynlegt ef við viljum ná árangri. Tímabilið er mjög langt. En við erum líka enn með tíma til stefnu til að fylla upp í,“ sagði Ten Hag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×