Enski boltinn

Liverpool og United berjast um vængmann Ajax

Atli Arason skrifar
Antony í leik með Ajax í Meistaradeild Evrópu á síðasta leiktímabili.
Antony í leik með Ajax í Meistaradeild Evrópu á síðasta leiktímabili. Getty Images

Brasilíumaðurinn Antony, leikmaður Ajax, hefur mikið verið orðaður við Manchester United það sem af er sumri en nú hafa erkifjendurnir í Liverpool blandast í baráttuna.

Antony lék undir stjórn Erik ten Hag, knattspyrnustjóra Manchester United, þegar sá hollenski var að stýra liði Ajax en Ten Hag var sá sem fékk Antony til Ajax frá Sao Paulo í Brasilíu árið 2020.

Sagt er að Ajax vilji fá allt að 60 milljónir punda fyrir leikmanninn sem spilar aðallega á hægri vængnum en getur þó leyst af fleiri leikstöður í fremstu víglínu. Er leikmaðurinn talinn vera ágætis lausn í stað Cristiano Ronaldo sem gæti verið á förum frá Manchester United. 

Nýjust fregnir af Englandi herma að Liverpool sé að blanda sér í baráttuna um Antony og gætu því stolið Antony frá erkifjendum sínum í United, beint fyrir framan nefið á þeim. Liverpool hafði betur gegn United í baráttunni um Darwin Nunez sem Liverpool keypti á metfé, fyrir 85 milljónir punda fyrr í sumar

Hvorki Liverpool né United eru þó talin vilja mæta 60 milljón punda verðmiða Ajax á Antony. Það verður því forvitnilegt að sjá hvað gerist í framhaldinu og hvar framtíð Brassans liggur.

Antony hefur leikið 78 leiki fyrir Ajax og skorað í þeim 22 mörk ásamt því að leggja upp önnur 20. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×