Innlent

Skemmdir unnar á sam­eign á stúdenta­görðum

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Nauðsynlegt sé að huga að persónuvernd þegar uppsetning á öryggismyndavélum sé annars vegar. Myndin er samsett.
Nauðsynlegt sé að huga að persónuvernd þegar uppsetning á öryggismyndavélum sé annars vegar. Myndin er samsett. Aðsent, Vísir/Hanna Andrésdóttir

Arnar Kjartansson fyrrum íbúi á Stúdentagörðunum við Suðurgötu greinir á Twitter síðu sinni frá skemmdarverkum sem gerð hafa verið á sameign garðana. Heiður Anna Helgadóttir, þjónustustjóri Stúdentagarða segir málið vera í farvegi.

Ekki er vitað hver er að verki en Arnar birtir myndir af hinum ýmsu skemmdum sem hafa verið unnar og óþægindum sem aðilinn hefur valdið.

„Ég ætlaði varla að trúa því sem að kom næst. Aðilinn tók risastórt grjót, setti í eina af fjórum sameignarþvottavélina og setti hana af stað. Hún er núna ónýt. Aðilinn hætti ekki þar, hann tók allskyns heimilisáhöld og dagblöð, setti í aðra þvottavél með næstum heilum dúnk af þvottaefni nokkrum dögum seinna og stíflaði hana. Það er nú beðið eftir viðgerðum og hvort hún sé í lagi,“ segir Arnar á Twitter.

Heiður Anna segir að búið sé að læsa hjólageymslunni og þvottahúsinu svo enginn komist inn án þess að hafa lykil og unnið sé að því að koma upp öryggismyndavélum. „Ef það gengur ekki þá verðum við bara að setja vakt á húsið,“ segir Heiður.

Íbúar hafi ítrekað beðið um öryggismyndavélar

Í ummælum við færslu Arnars má sjá gagnrýni gagnvart öryggi á sameignum Stúdentagarðana en íbúar hafi ítrekað beðið um að settar yrðu upp myndavélar á lesstofu.

Heiður segir könnun hafa verið gerða meðal íbúa hvað varðar uppsetningu öryggismyndavéla en hafi meirihluti ekki viljað það. Myndavélar séu í sameignum á ýmsum stöðum en ekki alls staðar. Aðspurð hvenær síðan sú könnun sé segir hún hana vera tveggja til þriggja ára gamla. „Það er alveg algjörlega mögulega kominn tími til að athuga málið aftur,“ segir Heiður.

Hún bætir því við að nauðsynlegt sé að huga að persónuvernd þegar uppsetning á öryggismyndavélum sé annars vegar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×