Erlent

Biden fundar með leiðtogum Palestínu og Sádi Arabíu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Biden hefur ekki vandað ráðamönnum Sádi Arabíu kveðjurnar en nú kæmi sér vel að þeir ykju olíuframleiðslu sína.
Biden hefur ekki vandað ráðamönnum Sádi Arabíu kveðjurnar en nú kæmi sér vel að þeir ykju olíuframleiðslu sína. epa

Joe Biden Bandaríkjaforseti mun funda með leiðtogum Palestínumanna á Vesturbakkanum í dag, áður en hann heldur í afar umdeilda heimsókn til Sádi Arabíu um helgina.

Biden, sem fordæmdi Sádi Arabíu harðlega fyrir tveimur árum vegna morðsins á blaðamanninum Jamal Khashoggi, mun funda með bæði Salman konungi og syni hans, krónprinsinum Mohammed bin Salman, sem er sagður hafa fyrirskipað morðið.

Leiðtogarnir eru sagðir munu ræða orku- og mannréttindamál, auk samvinnu á sviði öryggismála. Gera má ráð fyrir því að Biden freisti þess að fá Sádi Araba til að auka olíuframleiðslu vegna refsiaðgerða Vesturlanda gegn Rússum.

Stjórnvöld í Sádi Arabíu tilkynntu í gær að þau hygðust opna lofthelgi sína fyrir almennu flugi frá Ísrael.

Fundur Biden og Mahmoud Abbas, forseta Palestínu, verður fyrsti fundur háttsettra embættismanna ríkjanna frá því að skrifstofum PLO í Washington var lokað í stjórnartíð Donald Trump.

Palestínumenn vilja aukna aðkomu Bandaríkjamanna að tilraunum til að koma aftur á friðarviðræðum við Ísraelsmenn og að sendiskrifstofa Bandaríkjanna í Jerúsalem verði opnuð aftur en henni var lokað af Trump.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×