Fótbolti

Haller leysir Håland af hólmi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Haller mun hrella varnarmenn í Þýskalandi næstu misserin.
Haller mun hrella varnarmenn í Þýskalandi næstu misserin. EPA-EFE/MAURICE VAN STEEN

Sébastien Romain Teddy Haller á að leysa Erling Braut Håland af hjá Borussia Dortmund. Haller kemur frá Ajax og kostar rúmlega 30 milljónir evra.

Hinn 28 ára gamli Haller fór mikinn í liði Ajax á síðustu leiktíð og skoraði nánast í hverjum einasta leik. Eftir mislukkaða dvöl hjá West Ham United á Englandi færði Haller sig til Hollands þar sem hann blómstraði. Þar skoraði hann samtals 47 mörk í 66 leikjum, þá lagði hann upp 16 mörk til viðbótar.

Haller hefur áður spilað í Þýskalandi en hann lék með Eintracht Frankfurt frá 2017 til 2019 áður en West Ham keypti hann dýrum dómum.

Haller á að leysa einn heitasta framherja Evrópu af hólmi og ljóst að það eru stórir skór sem hann þarf að fylla en Håland hefur verið hreint út sagt stórkostlegur undanfarin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×