Enski boltinn

Sjö leikmenn á útleið frá Arsenal

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Nicolas Pepe, dýrasti leikmaður í sögu Arsenal, er til sölu. Alexandre Lacazette hefur nú þegar verið seldur.
Nicolas Pepe, dýrasti leikmaður í sögu Arsenal, er til sölu. Alexandre Lacazette hefur nú þegar verið seldur. Stuart MacFarlane/Arsenal FC via Getty Images

Enska úrvalsdeildarfélagið Arsenal ætlar sér að losa sig við sjö leikmenn til viðbótar áður en félagsskiptaglugginn lokar í næsta mánuði til að fjármagna enn frekari kaup til félagsins.

Lundúnaliðið hefur nú þegar selt tvo leikmenn, þá Matteo Guendouzi til Marseille og Alexandre Lacazette til Lyon.

Þá hefur Mikel Arteta, þjálfari liðsins, fengið fjóra leikmenn til liðsins sem ætlað er að styrkja hópinn. Það eru þeir Gabriel Jesus frá Manchester City, Matt Turner frá New England Revolution, Fabio Vieira frá Porto og Marquinhos frá Sao Paolo. Lundúnaliðið hefur nú þegar eytt 83 milljónum punda og það að selja leikmenn frá félaginu gæfi Arteta aukið fjármagn til að versla enn frekar.

Félagið er sagt vilja styrkja hópinn enn frekar og Belginn Yuri Tielemans, leikmaður Leicester, er efstur á óskalista Arteta.

Meðal leikmanna sem eru til sölu hjá Arsenal eru þeir Nicolas Pepe og Bernd Leno, en Pepe er dýrasti leikmaður félagsins frá upphafi. Þá eru Hector Bellerin, Lucas Torreira, Pablo Mari, Ainsley Maitland-Niles og Reiss Nelson einnig til sölu.

Illa hefur þó gengið að finna félög sem hafa getu eða áhuga á að fá þessa leikmenn í sínar raðir. Nýliðar Fulham hafa þó sýnt markverðinu Bernd Leno áhuga og nú lítur út fyrir að félögin séu að nálgast samkomulag um kaupverðið á Þjóðverjanum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.