Innlent

„Við verðum að gera betur“

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar

Lofts­lags­ráð og Náttúru­verndar­­sam­tök Ís­lands gagn­rýna stjórn­völd fyrir ó­­­skýr mark­mið í lofts­lags­­málum á sama tíma og losun gróður­húsa­­loft­­tegunda eykst gríðar­­lega hratt eftir heims­far­aldur. Ráð­herra tekur undir þetta og vill gera betur.

Eftir mikinn sam­drátt í losun gróður­húsa­loft­tegunda á heims­vísu í far­aldrinum er hún á hraðri upp­leið aftur.

Sam­kvæmt nýrri Hag­s­já Lands­bankans jókst losun á Ís­landi um rúm þrjú prósent í fyrra og um 6 prósent á fyrsta árs­fjórðungi þessa árs. Við út­reikningana er þó ekki miðað við al­þjóð­lega staðla eins og ríkið gerir og niður­stöðurnar mun grófari. Hér er til dæmis losun vegna rekstrar ís­lenskra aðila hvar sem hann á sér stað í heiminum tekin með í reikninginn.

„Hún hefði þurft að vera sex prósent niður en ekki þrjú prósent upp. Og þetta sýnir ef til vill hvað það skortir á festu og fram­fylgni af hálfu stjórn­valda til að draga úr losun. Og þau eru ekki alveg búin að setja það fyrir sig hvað þau ætla að gera og hvernig þau ætla að gera það,“ segir Árni Finns­son, for­maður Náttúru­verndar­sam­taka Ís­lands.

Hvað eiga stjórn­völd að gera?

„Senni­lega er mikil­virkast að draga úr losun í vega­sam­göngu, það er að segja frá bílum. Það þarf að skipta hraðar yfir í raf­orku, leggja gömlum bílum sem brenna bensíni og olíu og hækka gjaldið sem að fólk fær greitt fyrir að leggja þeim,“ segir Árni.

„Þau þurfa bara að gefa skýrari skila­boð um að þau ætli að draga úr losun. Það hefur skort á það.“

Árni segir 25 prósent aukningu hafa orðið í at­burðum sem gætu tengst lofts­lags­breytingum.vísir/sigurjón

Breytingarnar farnar að segja til sín

Fréttir af náttúru­ham­förum sem tengja má beint við hlýnun jarðar berast reglu­lega víðs vegar að úr heiminum.

Það á til dæmis við um jökul­skriðu sem varð í ítölsku Ölpunum í fyrra­dag þar sem sjö létust og 13 er enn saknað.

Árni segir lofts­lags­breytingar farnar að hafa bein á­hrif á líf okkar.

„Líka hér á landi. Það hefur verið 25 prósent aukning í at­burðum sem gætu tengst lofts­lags­breytingum í fyrra eða hitt í fyrra. Þannig að við erum með þetta líka. Við þurfum að að­laga okkur að breyttum tímum,“ segir Árni.

Verkefnið alls ekki fullskapað

Lofts­lags­ráð hefur kallað eftir því að stjórn­völd skýri það nánar hvernig þau hyggjast ná mark­miðum sínum í lofts­lags­málum og láti beinar að­gerðir fylgja lof­orðum sínum.

„Ég er bara sam­mála því að við þurfum að gera miklu betur. Auð­vitað er til­tölu­lega stutt síðan við hófum þessa veg­ferð. En það breytir því ekki að verk­efnið er stórt og þetta eru líka mjög metnaðar­full mark­mið,“ segir Guð­laugur Þór Þórðar­son, um­hverfis-, orku- og lofts­lags­ráð­herra.

Eru mark­miðin ekki nógu skýr núna?

„Í mínum huga er þetta bara þannig að þetta er í þróun og það var alveg vitað. Þegar þú ferð í verk­efni sem þetta þá kemurðu ekki með það full­skapað. Það er alveg vitað. Og í mínum huga, og ég hef sagt það alls staðar, við verðum að gera betur og við þurfum að vera ein­beitt í þessu. Við erum svo sannar­lega að vinna að því hér, ekki bara í ráðu­neytinu og ríkis­stjórninni, heldur er á­nægju­legt að sjá hvað er mikil vitundar­vakning alls staðar,“ segir Guð­laugur.

„Það þarf að skerpa á þessu enn frekar og við erum að leggja sér­staka á­herslu á það, ekki bara að mark­miðin séu skýrari og við náum árangri, heldur líka að þetta séu mælan­leg mark­mið þannig að allir viti hvernig gengur. Þannig náum við árangri.“

En hvernig nær ríkis­stjórnin að draga úr losun? Guð­laugur nefnir að mikil­vægt sé að geta mælt losunina í hverjum geira fyrir sig til að fylgjast með árangrinum. Sú vinna sé þegar hafin með at­vinnu­lífinu og sveitar­fé­lögum.

„Þetta er fíll. Og þú gleypir hann ekki í einum bita. Þú verður að skera hann niður og þú verður að vinna með öðrum,“ segir Guð­laugur Þór.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×