Innlent

Unnur Val­borg ráðin sveitar­stjóri í Húna­þingi vestra

Atli Ísleifsson skrifar
Unnur Valborg Hilmarsdóttir.
Unnur Valborg Hilmarsdóttir. Aðsend

Sveitarstjórn Húnaþings vestra hefur ráðið Unni Valborgu Hilmarsdóttur í starf sveitarstjóra til næstu fjögurra ára.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá formanni byggðarráðs Húnaþings vestra, en gert er ráð fyrir að Unnur taki til starfa í september.

„Unnur er með meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands (MPA), B.Ed. próf frá Kennaraháskóla Íslands, viðbótardiplomu í rekstri og stjórnun frá EHÍ. Hún hefur undanfarin fjögur ár starfað sem framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Þar áður var hún oddviti sveitarstjórnar í Húnaþingi vestra. Hún starfaði um árabil við ráðgjöf og námskeiðahald, í eigin fyrirtæki og hjá Dale Carnegie á Íslandi,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Þorleifi Karli Eggertssyni, oddviti sveitarstjórnar, að það sé mikill fengur að fá eins öfluga konu og Unni til starfa fyrir sveitarfélagið. „Í störfum sínum undanfarin ár hefur hún öðlast yfirgripsmikla þekkingu á stjórnkerfinu sem mun nýtast vel í sveitarstjórahlutverkinu. Hún þekkir samfélagið hér vel og hefur metnað og kraft til að stuðla að enn frekari eflingu þess. Við í sveitarstjórn berum miklar væntingar til samstarfsins.“

Þá segir Unnur að hún sé þakklát og stolt yfir að fá tækifæri til að vinna í þágu Húnaþings vestra. „Hér er gott fólk sem myndar afar öflugt samfélag sem hefur alla burði til að eflast enn frekar á komandi árum. Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum til að svo megi verða,“ segir Unnur.

Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur mynda meirihluta sveitarstjórnar Húnaþings vestra. Framsóknarflokkur fékk þrjá menn kjörna í sveitarstjórn í kosningunum í maí, en Sjálfstæðisflokkur tvo. Í minnihluta er N-listi sem fékk tvo menn kjörna. Þorleifur Karl Eggertsson, Framsóknarflokki, er oddviti sveitarstjórnar en Magnús Magnússon, Sjálfstæðisflokki er formaður byggðarráðs.


Tengdar fréttir

Sjálf­stæðis­flokkur og Fram­sókn bættu við sig eftir endur­talningu

Endurtalningu atkvæða í sveitarstjórnarkosningunum í Húnaþingi vestra er lokið. Ráðist var í endurtalningu þar sem aðeins munaði tveimur atkvæðum á því að N-listi Nýs afls í Húnaþingi vestra hefði náð inn þriðja manni í sveitarstjórn, á kostnað þriðja manns B-lista Framsóknarflokks og annarra framfarasinna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.