Fótbolti

Búið að sparka Pochettino frá París

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mauricio Pochettino fer yfir málin með Kylian Mbappé sem verður áfram í París eftir allt saman.
Mauricio Pochettino fer yfir málin með Kylian Mbappé sem verður áfram í París eftir allt saman. Getty Images/Mehdi Taamallah

Mauricio Pochettino hefur verið rekinn sem þjálfari Frakklandsmeistara París Saint-Germain. Argentínumaðurinn, sem lék með liðinu á sínum tíma, entist rétt rúma 18 mánuði í starfi.

Pochettino tók við PSG eftir að hafa gert góða hluti með Tottenham Hotspur og þar áður bæði Southampton og Espanyol. Hann skrifaði undir 18 mánaða samning við Parísarliðið í ársbyrjun 2021 en fékk svo samninginn framlengdan til sumarsins 2023 skömmu eftir að hafa tekið við liðinu.

Undir stjórn Pochettino varð liðið Frakklandsmeistari nú síðasta vor eftir að Lille hafði landað titlinum árið á undan. Þá gerði hann liðið að bikarmeisturum á þar síðustu leiktíð.

Árangur PSG í Meistaradeild Evrópu hefur hins vegar verið vonbrigði eins og svo oft áður. Er það talin ein helsta ástæða þess að Pochettino fékk sparkið. Þá er ljóst að lið fullt af öldruðum ofurstjörnum getur ekki spilað þann fótbolta sem hinn fimmtugi Argentínumaðurinn vill helst spila.

Skömmu síðar var svo staðfest að Christophe Galtier taki við liðinu en hann stýrði Lille er það varð meistari á síðasta ári. Hann hætti í kjölfarið með liðið og tók við Nice en er nú mættur til Parísar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.