Innlent

Erlendur ferðamaður lést í Almannagjá

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Talið er að andlát mannsins í Almannagjá hafi verið af náttúrulegum ástæðum.
Talið er að andlát mannsins í Almannagjá hafi verið af náttúrulegum ástæðum. Vísir/Vilhelm

Erlendur ferðamaður um sjötugt hneig niður á gangi í Almannagjá á Þingvöllum á laugardag. Bráðaliðar hjá þjóðgarðinum komu fljótt á vettvang, að sögn þjóðgarðsvarðar, en lífgunartilraunir báru ekki árangur. Lögreglan segir málið vera í rannsókn en það sé enginn grunur um neitt saknæmt.

Eftir að maðurinn hneig niður á laugardag veittu bráðaliðar hjá þjóðgarðinum fyrstu aðstoð ásamt starfs­fólki þjóðgarðsins. Lífgunartilraunir báru ekki árangur og var maðurinn úrskurðaður látinn á staðnum.

Mikill viðbúnaður lög­reglu var á staðnum, lögregla og sjúkra­flutn­inga­menn voru kölluð út frá Reykja­vík og frá Sel­fossi auk þess sem þyrla frá Land­helg­is­gæslu lenti á svæðinu. Lögreglan á Suðurlandi segir málið vera í rannsókn en að ekki væri um slys að ræða heldur væri andlátið líklega af náttúrulegum ástæðum. Þá væri enginn grunur um neitt saknæmt.

Aukinn fjöldi ferðamanna auki líkur á að eitthvað gerist

Blaðamaður Vísis hafði samband við Einar Á. E. Sæmundsen, þjóðgarðsvörð, sem sagði að sjúkraflutningamaður hjá þjóðgarðinum hefði komið fljótt á staðinn og að þær endurlífgunartilraunir sem hófust strax í kjölfarið hafi ekki borið árangur.

Einar sagði að með auknum fjölda ferðamanna séu auknar líkur á að eitthvað á borð við þetta geti gerst. Það séu hins vegar oftar slys sem eigi sér stað frekar en atvik í líkingu við þetta. Í gegnum tíðina hafi starfsfólk Þingvalla hins vegar séð alls konar atvik.

Þá sagði hann að beint í kjölfar atviksins hefði starfsfólk þjóðgarðsins farið vel í gegnum málið og haldið fund þar sem þau ræddu málið. Hann sagði að það væri mjög gott að hleypa svona hlutum strax út og að þeir starfsmenn sem hefðu komið að málinu með beinum hætti hafi boðist öll möguleg aðstoð sem væri í boði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×