Fótbolti

CSKA mun leita réttar síns

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnór í leik með CSKA Moskvu.
Arnór í leik með CSKA Moskvu. TF-Images/Getty Images

Rússneska knattspyrnufélagið CSKA Moskva ætlar að leita réttar síns gagnvart ákvörðun FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandsins, er varðar samningsstöðu erlendra leikmanna í Rússlandi. Arnór Sigurðsson er meðal þeirra sem hafa nýtt sér téð ákvæði.

Arnór er samningsbundinn CSKA til ársins 2024 en eyddi síðustu leiktíð á láni hjá Venezia á Ítalíu. Líkt og Vísir greindi frá í júní tilkynnti FIFA að búið væri að framlengja sérstakt vinnuúrræði fyrir erlenda leikmenn og þjálfara sem samningsbundnir eru rússneskum og úkraínskum liðum.

Arnór og Nígeríumaðurinn Chidera Ejuke eru meðal þeirra sem nýttu sér úrræðið og þá ákvað Mario Fernandes, einn af lykilmönnum CSKA, að fara til Brasilíu. CSKA harmar ákvörðun leikmannanna og ætlar leita réttar síns.

„Félagið harmar ákvörðun leikmannanna, sem var tekin þrátt fyrir tilraunir félagsins að halda þeim og þá staðreynd að þeir eru samningsbundnir. CSKA telur ákvörðun FIFA brjóta á rússneskum félagsliðum og ætlar að leggja fram kæru til þess að vernda rétt sinn,“ segir á vefsíðu CSKA.

Ekki hefur komið fram hvert Arnór fer en úrræðið gerir honum og öðrum sem spila í Rússlandi og Úkraínu kleift að losna tímabundið undan samningi sínum, eða fram til 30. júní 2023.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.