Fótbolti

Ensk stór­lið mok­græða á undir­búnings­tíma­bilinu: Gætu fengið 485 milljónir fyrir leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Liverpool fer til Singapúr.
Liverpool fer til Singapúr. EPA-EFE/JOSE COELHO

Stórlið ensku úrvalsdeildarinnar eru loks á leið í það sem mætti kalla eðlilegt undirbúningstímabil eftir að kórónufaraldurinn lék heiminn grátt. Fagna gjaldkerar liðanna eflaust hvað mest ef marka má tölur sem birtust á The Athletic.

Á íþróttavefnum Athletic er farið yfir æfingaferðir stórliða ensku úrvalsdeildarinnar og hvað liðin græða fjárhagslega á því. Helmingur allra liða í ensku úrvalsdeildinni mun spila æfingaleiki utan Evrópu í von um að græða sem mest.

Arsenal, Chelsea, Everton og Manchester City eru öll á leið til Bandaríkjanna á meðan Aston Villa, Crystal Palace, Leeds United og Manchester United munu öll heimsækja Ástralíu. Liverpool mun eyða í Singapúr og Tottenham Hotspur mun ferðast til Suður-Kóreu.

Þá munu spænsku stórliðin Real Madríd og Barcelona spila El Clásico í Las Vegas í Bandaríkjunum.

Það hljómar eflaust undarlega að eyða dýrmætum tíma af undirbúningstímabilinu í heimshornaflakk en þegar innkoma liðanna vegna þessara ferðalaga er skoðuð þá verður þetta skiljanlegra.

Stærstu knattspyrnufélögin urðu af gríðarlegum tekjum í faraldrinum og ætla að bæta það upp nú. Í frétt The Athletic er talið að stærstu félögin gætu fengið allt að fjórar milljónir punda, tæplega 650 milljónir íslenskra króna, fyrir einn vináttuleik.

Kostnaður við ferðalagið og að spila leikinn gæti verið ein milljón punda sem þýðir að hagnaðurinn er þrjár milljónir punda eða 485 milljónir íslenskra króna. Eftir mögur ár eru slíkar upphæðir vel þegnar og útskýra að mörgu leyti af hverju liðin leggja slík ferðalög á sig. Þá eykst sala á varningi tengdum liðunum gríðarlega við komu þeirra til landa á borð við Ástralíu, Singapúr og Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×