Fótbolti

FH á leið í átta liða úrslit eftir öruggan sigur | Ægir áfram eftir dramatík

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Björn Daníel Sverrisson skoraði tvö mörk fyrir FH í kvöld.
Björn Daníel Sverrisson skoraði tvö mörk fyrir FH í kvöld. vísir/daníel

FH-ingar eru á leið í átta liða úrslit Mjólkurbikars karla eftir öruggan 6-1 sigur gegn ÍR í kvöld. FH leikur í Bestu-deildinni, en ÍR-ingar í 2. deild, og því komu úrslitin ekkert sérlega á óvart.

Björn Daníel Sverrisson kom heimamönnum í FH yfir strax á sjöttu mínútu leiksins áður en Guðmundur Kristjánsson tvöfaldaði forystu FH-inga tíu mínútum síðar.

Þriðja mark FH-inga skoraði Björn Daníel Sverrisson á 48. mínútu, en Baldur Logi Guðlaugsson bætti fjórða markinu við mínútu síðar.

Það var svo Steven Lennon sem skoraði fimmta mark heimamanna áður en Már Viðarsson minnkaði muninn fyrir ÍR með marki af vítapunktinum þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka.

Máni Austmann Hilmarsson gulltryggði svo að lokum sigur FH-inga þegar hann skoraði sjötta mark liðsins í uppbótartíma.

Niðurstaðan því öruggur 6-1 sigur FH-inga sem eru á leið í átta liða úrslit Mjólkurbikarsins, en ÍR-ingar sitja eftir með sárt ennið.

Þá vann Ægir frá Þorlákshöfn dramatískan 1-0 sigur gegn Fylki og er á leik í átta liða úrslit. Ægir leikur í 2. deild en Fylkir í Lengjudeildinni og sigur Þorlákshafnarbúa því heldur óvæntur.

Það var Ágúst Karel Magnússon sem skoraði markið sem skildi liðin að á þriðju mínútu uppbótartíma og Ægir því á leið í átta liða úrslit.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara fengust á Fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×