Erlent

Sprengdu íbúðarblokkir í Kænugarði

Kjartan Kjartansson skrifar
Svartur reykur stígur upp frá íbúðarblokk sem varð fyrir rússneskri eldflaug í Kænugarði í morgun.
Svartur reykur stígur upp frá íbúðarblokk sem varð fyrir rússneskri eldflaug í Kænugarði í morgun. AP/Nariman el-Mofty

Rússar vörpuðu sprengum á að minnsta kosti tvær íbúðarblokkir í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, eldsnemma í morgun. Borgarstjóri Kænugarðs segir að sjö ára gamalli stúlku hafi verið bjargað úr rústunum.

Fréttamenn AP-fréttastofunnar sáu slökkvi- og björgunarlið glíma við eld og bjarga óbreyttum borgurum í morgun. Vitali Klitsjkó, borgarstjóri, segir að tveir hafi verið fluttir á sjúkrahús og að sjö ára stúlku hafi verið bjargað lifandi úr rústunum.

Oleksíj Gontsjarenko, úkraínskur þingmaður, skrifaði á samfélagsmiðilinn Telegram að bráðabirgðaupplýsingar bendi til þess að Rússar hafi skotið fjórtán eldflaugum á Kænugarð og umlykjandi hérað. Þetta eru fyrstu loftárásir Rússa á höfuðborgina frá 5. júní.

Rússar reyna nú að ganga á lagið í austurhluta landsins eftir að úkraínski herinn gaf borgina Sjevjerodonetsk upp á bátinn. Reyna þeir nú að fella síðustu vígi Úkraínumanna í Luhans-héraði, þar á meðal með linnulausum loftárásum á nágrannaborgina Lysjansk.

„Það er mikil eyðilegging, Lysjansk er nærri því óþekkjanleg,“ skrifaði Serhíj Haidai, héraðsstjóri Luhansk, á Facebook.

Haidai staðfesti í gær að Sjeverjodonetsk væri fallin í hendur rússneska hersins og uppreisnarmanna. Þeir reyndu nú að slá upp herkví um Lysjansk úr suðri.


Tengdar fréttir

Rússar létu sprengjum rigna yfir Luhansk

Rússar reyna nú eftir fremsta megni að ná borgunum Sieveródonetsk og Lysychansk í Luhanskhéraði á sitt vald. Þeir létu sprengjum rigna yfir borgirnar í morgun og hæfðu meðal annars efnaverksmiðju þar sem hundruð almennra borgara hafa leitað skjóls undanfarið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×