Erlent

Herða reglur um rafs­kútur sem sagðar eru gera Róm að villta vestrinu

Árni Sæberg skrifar
Rómverjar og aðkomumenn aka margir fram hjá spænsku tröppunum á leigðum rafskútum.
Rómverjar og aðkomumenn aka margir fram hjá spænsku tröppunum á leigðum rafskútum. Gennaro Leonardi/Getty

Borgaryfirvöld í Róm á Ítalíu ætla að herða reglur um notkun rafskúta, hámarkshraði verður lækkaður og notkun verður bönnuð börnum.

Líkt og svo víða annars staðar er rafskútuleigumarkaður sístækkandi í Róm, höfuðborg Ítalíu. Þar eru nú 14.500 rafskútur frá sjö mismunandi leigum til leigu. 

Það er ekki bara tekið út með sældinni að hafa aðgang að svo mörgum rafskútum en sautján manns hafa látist á Ítalíu á síðustu tveimur árum í slysum tengdum rafskútum, að sögn neytendasamtakanna Codacons.

„Þetta er villta vestrið þar sem rafskúturnar eru þar sem þær ættu ekki að vera, oft með tvo um borð og yfir hámarkshraða,“ hefur The Guardian eftir formanni þeirra, Carlo Rienzi.

Lögreglan í Róm fær fimmtán mál á mánuði inn á borð til sín þar sem slys verða á fólki af völdum rafskútunotkunar, að sögn AFP.

Samkvæmt nýjum reglum sem lagðar hafa verið til í borgarstjórn verður aðeins fullorðnum sem geta framvísað skilríkjum leyft að taka rafskútur á leigu, rafskútuleigum fækkað í þrjár og hámarkshraði lækkaður í tuttugu kílómetra á klukkustund á götum og í sex kílómetra á klukkustund á gangstéttum.

Nýjar reglur falla misvel í kramið hjá Rómverjum en notendur rafskúta kvarta margir sáran yfir lækkuðum hámarkshraða á meðan aðrir fagna.

„Þeir svína fyrir mann. Þeir taka fram úr bæði hægra og vinstra megin, þeir festast fyrir framan okkur og eiga á hættu að kremjast,“ segir strætóbílstjórinn Paulo Facioni í samtali við The Guardian. Hann fagnar tilkomu hertra reglna um rafskútur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×