Erlent

Vaktin: Úkraínska hernum skipað að hörfa úr Sieveródonetsk

Hólmfríður Gísladóttir og Magnús Jochum Pálsson skrifa
Eyðileggingin blasir víða við.
Eyðileggingin blasir víða við. epa/Oleg Petrasyuk

Stjórnvöld í Úkraínu hafa ákveðið að láta hersveitirnar sem barist hafa í Sieverodonetsk hörfa og segja ekkert vit í því að láta þær sæta mannfalli í langan tíma til að verja svæðið. Ríkisstjórinn segir 90 prósent allra heimila í borginni skemmd eða eyðilögð.

Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í Úkraínu fram eftir degi.

Helstu vendingar:

  • Úkraínska hernum hefur verið skipað að hörfa frá Sieveródonetsk til að forða því að Rússar umkringi þá, segir Serhíy Haidai, héraðsstjóri Lúhansk-héraðs í dag.
  • Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti birti færslu á Telegram í morgun þar sem hann sagði Úkraínu ekki brú eða kodda milli Vesturlanda og Rússlands, ekki stuðpúða milli Evrópu og Asíu, ekki „grátt svæði“. Úkraína væri ekki „landmæri milli orka og álfa“ heldur jafn félagi að minnsta kosti 27 Evrópuríkja.
  • Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir Vesturlönd óttast „heiðarlega samkeppni“. Þannig sé öllum þeim ríkjum sem standa á eigin fótum „slaufað“. Hann sagði að horft yrði til stöðunnar á vígvellinum þegar Úkraínumenn sýndu þann þokka að snúa aftur að samningaborðinu.
  • Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir Breta reiðubúna til að aðstoða við að fjarlægja sprengjur við suðurströnd Úkraínu. Sprengjurnar eru meðal þess sem stendur í vegi fyrir útflutningi kornvöru sjóleiðina frá landinu.
  • Bandaríkjamenn segja rússneska flotann hafa fengið fyrirskipanir um að leggja sprengjur við mynni hafnarinnar í Odesa og hafa þegar lagt sprengjur á ánni Dniper. Um sé að ræða aðgerðir til að hamla útflutningi matvæla.
  • Samkvæmt UNESCO hafa 150 menningarlega mikilvægir staðir í Úkraínu verið skemmdir eða eyðilagðir. Þar af er um að ræða 70 trúarlegar byggingar, 30 sögulegar byggingar, átján menningarmiðstöðvar, fimmtán minnisvarða, tólf söfn og sjö bókasöfn.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.