Erlent

Réttað verður yfir læknaliði Maradona

Kjartan Kjartansson skrifar
Aðdáendur Boca Juniors með borða með mynd af Diego Maradona. Hann var í guðatölu í Argentínu vegna afreka sinna á knattspyrnuvellinum.
Aðdáendur Boca Juniors með borða með mynd af Diego Maradona. Hann var í guðatölu í Argentínu vegna afreka sinna á knattspyrnuvellinum. Vísir/EPA

Dómari í Argentínu hefur ákveðið að réttað skuli yfir læknaliði Diego Maradona vegna manndráp af gáleysi. Sérfræðinganefnd komst að þeirri niðurstöðu að meðferðin sem Maradona fékk hafi einkennst af vanrækslu og óreglu.

Maradona lést af völdum hjartaáfalls í Buenos Aires í nóvember 2020. Hann var sextugur að aldri. Þegar hann lést var hann að jafna sig á skurðaðgerð vegna blóðtappa í heila fyrr í mánuðinum.

Nefnd sérfræðinga sem var skipuð til að rannsaka dauða Maradona komst að þeirri niðurstöðu að læknar og hjúkrunarfræðingar sem önnuðust knattspyrnumanninn fyrrverandi hafi hagað sér á óviðeigandi, ófullnægjandi og skeytingarlausan“ hátt. Maradona hefði átt betri líkur á að lifa af hefði hann fengið betri umönnun. Hann hafi sýnt skýr merki um veruleg óþægindi hálfum sólarhring áður en hann lést.

Þau ákærðu eru Leopoldo Luque, taugaskurðlæknir og persónulegur læknir Maradona, tveir sálfræðingar, tveir læknar, tveir hjúkrunarfræðingur og yfirmaður þeirra. Þau neita öll að bera ábyrgð á dauða Maradona, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Fólkið gæti átt allt frá átta til tuttugu og fimm ára fangelsisvist yfir höfði sér verði það fundið sekt um manndráp af gáleysi. Ekki hefur verið ákveðið hvenær réttarhöldin yfir þeim hefjast. AP-fréttastofan segir að líklega verði það ekki fyrr en undir lok þessa árs eða í byrjun þess næsta.


Tengdar fréttir

Vilja taka hjartað úr Maradona með á HM

Diego Maradona er sannkallaður guð í augum margra Argentínumanna og þó að hann sé fallinn frá vilja sumir þeirra að hluti af honum fylgi argentínska landsliðinu á HM í Katar í lok árs.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×