Fótbolti

Maradona var „að deyja“ í tólf tíma áður en hann lést

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Maradona fór illa með sig en hann hafði getað fengið hjálp á þeim tólf tímum sem hann kvaldist.
Diego Maradona fór illa með sig en hann hafði getað fengið hjálp á þeim tólf tímum sem hann kvaldist. Getty/Marcos Brindicci

Læknar og umsjónarfólk Diego Armando Maradona sýndu fífldirfsku og óviðeigandi hegðun í umönnun hans samkvæmt nýrri úttekt í Argentínu á dauða knattspyrnugoðsins.

Rannsóknarnefnd lækna í Argentínu hefur skilað niðurstöðu sinni í úttekt sinni á dauða knattspyrnugoðsins Diego Armando Maradona.

Maradona lést í lok nóvember í fyrra og í kjölfarið var mikil þjóðarsorg í Argentínu sem og annars staðar í heiminum þar sem Maradona var vinsæll. Maradona er einn besti knattspyrnumaður sögunnar og þegar hann var upp á sitt besta þá komst enginn með tærnar þar sem hann var með hælana.

Dauði Maradona kom flestum mikið á óvart þrátt fyrir að hann hafi farið illa með sig. Um leið kom líka upp mikil gagnrýni á meðhöndlun Maradona en hann var frekar nýkominn heim eftir að hafa farið í heilaaðgerð í byrjun nóvember.

Maradona lést á heimili sínu eftir að hafa fengið hjartaáfall. Það var hins vegar margt í ólesti þegar kom að þeirri umönnun sem hann fékk í aðdraganda dauða hans. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar sýnir það og sannar.

Rannsóknarnefndin kom saman í mars en hún var sett saman af argentínska dómsmálaráðuneytinu. Það er niðurstaða nefndarinnar að þeir sem sáu um Diego Maradona hafi gerst sekir um ábyrgðarleysi og ófagmennsku.

„Heilsuteymið sem sinnti (Diego Armando Maradona) sýndi af sér ófullnægjandi, gallaða og fífldjarfa hegðun,“ sagði meðal annars í skýrslunni sem Reuters segir frá.

Í skýrslunni kemur fram að Mardona hafði orðið alvarlega veikur og hafi verið að deyja í kringum tólf tíma áður en hann lést um miðjan dag 25. nóvember.

„Hann sýndi ótvíræð merki um óþægjandi í langan tíma og það er okkar niðurstaða að hann hafi ekki fengið rétta meðferð frá klukkan hálf eitt um nóttina,“ sagði í skýrslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×