Erlent

Skoða að leggja eldsneytisskatt til hliðar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Eldsneytisverð er í hæstu hæðum í Bandaríkjunum um þessar mundir. Hér sést verðið á dæli í bænumCedar Rapids í Iowa á föstudaginn var.
Eldsneytisverð er í hæstu hæðum í Bandaríkjunum um þessar mundir. Hér sést verðið á dæli í bænumCedar Rapids í Iowa á föstudaginn var. Nick Rohlman/The Gazette via AP

Joe Biden, Bandaríkjaforseti, og ráðgjafar hans liggja nú yfir því hvort ráðlegt sé að afnema tímabundið eldsneytisskatt til þess að berjast gegn hækkandi eldsneytisverði og verðbólgu í Bandaríkjunum.

Í gær sagði Jennifer Granholm, orkumálaráðherra Bandaríkjanna að tillaga um að leggja eldsneytisskatt sem lagður er á í öllum ríkjum Bandaríkjanna tímabundið til hliðar, væri til skoðunar.

Í dag staðfesti Biden að tillagan væri til alvarlegrar skoðunar.

„Já, ég er að skoða það. Ég vona að ég geti tekið ákvörðun byggða á þeim gögnum sem ég er að skoða fyrir vikulok,“ sagði Biden við blaðamenn í dag.

Bandaríska alríkisstjórnin tekur til sín 18,3 sent á hvert gallon af bensínu og 24,4 sent af hverju galloni af dísel sem Bandaríkjamenn dæla á bíla sína.

Á íslenskum mælikvarða eru það um 24 krónur á hvert gallon af bensínu og 29 krónur á hvert gallon af dísel. Eitt gallon er um 3,8 lítrar og því er skatturinn um sex krónur á hvern lítra af bensíni og um átta krónur á hvern lítra af dísel.

Joe Biden var á ströndinni í dag.(AP Photo/Manuel Balce Ceneta)

Eldsneytisverð er í hæstu hæðum í Bandaríkjunum, um fimm dollara á hvert gallon eða um 172 krónur á hvern lítra.

Verðbóla er einnig í hæstu hæðum í Bandaríkjunum og mælist nú um 8,6 prósent.

Tímabundin aflétting eldsneytiskattsins er sögð vera ein af mörkum tillögum sem ríkisstjórn Biden ku vera að skoða til að létta á verðbólguþrýstingi.

Þá sagðist Biden einnig ætla krefja forsvarsmenn bandarískra olíuframleiðenda svara um af hverju ekki væri að vinna meiri olíu til þess að auka mætti framboð af olíu og olíuvörum.


Tengdar fréttir

Óánægja með Joe Biden eykst

Óánægja Bandaríkjamanna með Joe Biden Bandaríkjaforseta eykst þriðju vikuna í röð. Aðeins 39% kjósenda eru ánægð með forsetann en 56% segjast óánægð. Þetta ánægjuhlutfall er með því lægsta sem hefur mælst í forsetatíð Biden.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×