Innlent

„Getum ekki horft á þessa stöðu mikið lengur“

Atli Ísleifsson skrifar
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ráðherra ferðamála, segist opin fyrir því að loka Reynisfjöru tímabundið, þegar sjávarföll eru talin lífshættuleg.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ráðherra ferðamála, segist opin fyrir því að loka Reynisfjöru tímabundið, þegar sjávarföll eru talin lífshættuleg. vísir/vilhelm

„Við getum ekki horft á þessa stöðu mikið lengur,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ráðherra ferðamála, um ástandið í Reynisfjöru þegar kemur að öryggi ferðamanna. Hún hyggst ræða við landeigendur og fulltrúa ferðaþjónustunnar um málið í næstu viku og kveðst opin fyrir því að loka ströndinni tímabundið þegar sjávarföll eru talin lífshættuleg.

Erlendur ferðamaður á áttræðisaldri lést í Reynisfjöru á föstudaginn og var þar um að ræða fimmta banaslysið í fjörunni á síðustu sjö árum.

„Vegna þessarar stöðu sem upp er komin og hefur verið í talsverðan tíma þá skipaði ég verkefnastjórn til að fara yfir allt landið. Ekki bara Reynisfjöru. Verkefnastjórnin skilaði mér í gær, vann mjög hratt og örugglega,“ sagði Lilja við fréttamann að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

„Eitt af því sem við getum gert, við getum gripið til lokana, en tímabundið. Það er enginn að tala um að loka Reynisfjöru. Aðeins þegar sjávarföllin eru með þeim hætti að þau reynast lífshættuleg. En þetta gerum við að sjálfsögðu við í samvinnu við landeigendur og ferðaþjónustuna.

Í næstu viku mun ég funda með þeim þar sem við förum yfir ýmsar leiðir. Sumir hafa nefnt að auka alla gæslu á svæðinu. Ég er líka opin fyrir því. Meginmarkmiðið er að hafa þetta opið, en við getum ekki haft þetta opið þannig að mannslífum sé stefnt í voða,“ segir Lilja.

Sjá má viðtalið í heild sinni í spilara að neðan.

 Lilja segir að við getum ekki horft á þessa stöðu mikið lengur. „Þessi vinna sem verkefnahópurinn kláraði er mjög góð og skýr. Og nú óska ég eftir góðu samvinnu og samstarfi við þá sem eru á þessu svæði.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×