Erlent

Í lífs­­tíðar­fangelsi eftir að hún lét skáld­­sögu sína verða að veru­­leika

Eiður Þór Árnason skrifar
Nancy Crampton Brophy í dómssal í apríl. Hún hefur verið fundin sek um annarrar gráðu morð.
Nancy Crampton Brophy í dómssal í apríl. Hún hefur verið fundin sek um annarrar gráðu morð. AP/The Oregonian/Dave Killen

Höfundur sögu sem titluð er Hvernig á að myrða eiginmann þinn var í gær dæmd í lífstíðarfangelsi með möguleika á reynslulausn fyrir að drepa eiginmann sinn í Portland í Bandaríkjunum fyrir fjórum árum.

Hin 71 árs gamla Nancy Crampton Brophy hafði birt sögu sína á netinu nokkrum árum fyrr. Saksóknari segir að hún hafi skotið 63 ára Dan Brophy til bana á vinnustað hans árið 2018 vegna þess að hún hafi vonast til að fá greiddar 1,5 milljónir bandaríkjadala út úr líftryggingunni eiginmannsins. Hún var sakfelld fyrir annarar gráðu morð í seinasta mánuði. 

Málið hefur vakið nokkra athygli í Bandaríkjunum í ljósi skrifa hennar en hjónin höfðu verið gift í 26 ár. Dómari heimilaði ekki að horft væri til sögunnar sem sönnunargagns við réttarhöldin

Crampton Brophy hefur sömuleiðis skrifað og gefið út erotískar ástarsögur með titlum á borð við Rangi eiginmaðurinn og Rangi elskuhuginn, af því er fram kemur í frétt BBC. Í Hvernig á að myrða eiginmann þinn útlistaði hún nokkrar ólíkar leiðir til að fremja verknaðinn þar sem meðal annars var notast við skotvopn, hnífa, eitur og leigumorðingja. 

Hafi átt náið og ástríkt samband

Saksóknari sagði kviðdómi að hjónin hafi átt í fjárhagslegum erfiðleikum þegar Crampton Brophy myrti eiginmann sinn og í aðdraganda þess hafi hún fest kaup á búnaði til að útbúa órekjanlegt skotvopn og síðar keypt Glock 17 handbyssu á skotfærasýningu.

Að sögn AP-fréttaveitunnar hafnaði verjandi Crampton Brophy málflutningi ákæruvaldsins, þar á meðal að hjónin hafi átt í miklum fjárhagslegum erfiðleikum. Þá bar fólk vitni um sterkt og ástríkt samband þeirra.

Crampton Brophy sagði sjálf að bæði hún og eiginmaður hennar hafi keypt líftryggingu til að búa í haginn fyrir eftirlaunaárin og verið búin að útbúa áætlun til að draga úr skuldum sínum. Þá hafi rannsókn hennar á órekjanlegum vopnum verið hluti af undirbúningi fyrir framtíðar skáldsögu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×