Fótbolti

„Lélegt að markið hafi verið dæmt út frá líkum“

Andri Már Eggertsson skrifar
Rúnar Alex Rúnarsson fannst mark Ísrael ekki átt að standa
Rúnar Alex Rúnarsson fannst mark Ísrael ekki átt að standa Vísir/Hulda Margrét

Rúnar Alex Rúnarsson, markmaður A-landsliðs karla í fótbolta, var afar sár með að hafa ekki tekist að ná sigri gegn Ísrael. Rúnar var heldur ekki sannfærður um að annað mark Ísraels hefði átt að standa. 

„Þetta var flottur leikur hjá okkur. Við stjórnuðum leiknum fyrsta hálftímann og hefðum átt að komast tveimur mörkum yfir. Ísrael skoraði skítamark í fyrri hálfleik og einnig var spurning hvort annað markið hefði átt að standa“ sagði Rúnar Alex og hélt áfram.

„Við höfum lagt ógeðslega mikið á okkur síðustu þrjár vikur. Þetta var erfiðasta tap sem ég hef upplifað í langan tíma,“ sagði Rúnar Alex og leiðrétti sig síðan þar sem leikurinn endaði með jafntefli en honum leið eins og leikurinn hafi endað með tapi.

Rúnar Alex var ekki sáttur með annað mark Ísraels þar sem honum fannst boltinn ekki vera allur inni.

„Ég upplifði boltann ekki inni þar sem ég setti hnéð út. Ég stóð inn í markinu en ég hreyfði mig fram á við og upplifði boltann ekki inni. Það var lélegt að dómarinn skuli gefa mark sem var dæmt út frá líkum. Ég sá nokkur sjónarhorn og það var ekki hægt að dæma út frá því að þetta hafi verið hundrað prósent mark.“

„Ég væri frekar til í að hafa marklínutækni á öllum völlum og frekar VAR á sumum völlum. Það eru margar reglur í fótbolta sem er hægt að túlka á mismunandi vegu en hvort boltinn fari yfir línu eða ekki er bara staðreynd. Ef það hefði verið marklínutækni sem hefði staðfest þetta þá væri auðveldara að fara heim og sofna í kvöld en núna hugsa ég bara ef og hefði,“ sagði Rúnar Alex Rúnarsson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×