Fótbolti

Ekki missa af Hlín og stöllum hennar í mið­nætur­sólinni í Sví­þjóð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hlín hefur spilað vel það sem af er leiktíð.
Hlín hefur spilað vel það sem af er leiktíð. Andreas Sandström/Bildbyrån

Hlín Eiríksdóttir og stöllur hennar í Piteå mæta Djurgården í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 21.00 að íslenskum tíma og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 3 en í Svíþjóð verður klukkan 23.00 er flautað verður til leiks.

„Þetta er út af miðnætursólinni, það er bjart allan sólahringinn hér í Norður-Svíþjóð,“ sagði Hlín í stuttu spjalli við íþróttavef mbl.is um þennan undarlega leiktíma. Hin 22 ára gamla Hlín telur að Piteå fái eitthvað aukalega í kassann „ef ég skil þetta rétt.“

„Þetta verður allt öðruvísi en aðrir heimaleikir því leikurinn er í öðrum bæ, enn norðar en Piteå. Við æfðum seint núna í kvöld og reynum svo að sofa aðeins út á morgun,“ sagði Hlín að endingu.

Hlín skoraði er liðin mættust fyrr á leiktíðinni en þá vann Piteå 4-1 stórsigur. Þegar 13 umferðir eru búnar af sænsku úrvalsdeildinni eru Hlín og stöllur hennar í 9. sæti með 17 stig, tveimur minna en Djurgården.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×