Erlent

Aðeins ein brú eftir inn í Severodonetsk

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Eyðilagðir bílar við veg í borginni Severodonetsk.
Eyðilagðir bílar við veg í borginni Severodonetsk. AP/Oleksandr Ratushniak

Harðir bardagar hafa haldið áfram í úkraínsku borginni Severodonetsk og segir héraðsstjórinn Serhiy Haidai ljóst að Rússar séu nú að reyna að einangra borgina að fullu og ná þar yfirráðum. Volodomir Selenskí Úkraínuforseti segir að nú sé barist um hvern einasta metra í borginni.

Rússneski herinn eyðilagði í nótt enn eina brúna sem liggur inn í borgina og hefur verið að gera harða hríð að þeirri síðustu. Brýrnar tengja borgina við aðra úkraínska borg, Lysychansk. Nái Rússar að eyðileggja síðustu brúna mun það gera Úkraínumönnum í Severodonetsk ómögulegt að flýja, eða fá frekari liðsauka, vopn og vistir. 

Selenskí sagði í reglulegu næturávarpi sínu að Rússar leggi nú höfuðáherslu á Severodonetsk og etji nú lítt þjálfuðum ungum mönnum út á vígvöllinn. Forsetinn fullyrðir að fyrir júnílok muni rússneski herinn hafa misst fjörutíu þúsund hermenn í stríðinu í Úkraínu, sem sé mesta mannfall Rússa í stríði í marga áratugi. 

Selenskí áréttaði enn og aftur nauðsyn þess að vestræn ríki komi þeim til aðstoðar með því að láta þeim í té fullkomin eldflaugavarnarkerfi en hann segir rúmlega 2600 rússneskar stýriflaugar hafi sprungið í Úkraínu frá því innrásin hófst.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×