Enski boltinn

Segja að Barcelona hafi hafnað tilboði United í De Jong

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Frenkie de Jong hefur verið orðaður við Manchester United í nokkrar vikur.
Frenkie de Jong hefur verið orðaður við Manchester United í nokkrar vikur. Burak Akbulut/Anadolu Agency via Getty Images

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Manchester United hafa átt í samtali við Barcelona um möguleg kaup félagsins á miðjumanninum Frenkie de Jong.

Erik ten Hag, nýráðinn knattspyrnustjóri Manchester United, hefur verk að vinna í félagsskiptaglugganum. Svo virðist sem hann vilji ólmur fá Frenkie de Jong til Menchester-borgar, en De Jong lék undir stjórn Ten Hag hjá Ajax á sínum tíma.

Ef marka má greinar frá The Guardian og Sky Sports var fyrsta tilboði United í leikmanninn hafnað af forráðamönnum Barcelona. The Guardian segir að United hafi boðið tæplega 60 milljónir punda í leikmanninn.

Aðrir miðlar, svo sem BBC, segja þó að ekkert boð í leikmanninn hafi borist frá United. Ekki enn í það minnsta.

Félagsskiptamógúllinn Fabrizio Romano segir einnig frá því að fyrsta boði United í leikmanninn hafi verið hafnað. Samkvæmt hans heimildum bauð United tæplega 60 milljónir punda í leikmanninn, þar af væru tæplega tíu milljónir í árangurstengda bónusa.

De Jong gekk í raðir Barcelona frá Ajax árið 2019 fyrir 65 milljónir punda. Síðan þá hefur hann leikið 140 leiki fyrir félagið í öllum keppnum og skorað 13 mörk.

Miðsvæðið er klárlega sú staða sem þarfnast hvað mestrar styrkingar hjá United í sumar, en Paul Pogba, Nemanja Matic og Juan Mata eru allir á leið frá félaginu. Rauðu djöflarnir eru því heldur undirmannaðir á miðsvæðinu og koma Frenkie de Jong gæti því verið eitt skref í átt að lausn við þeim vanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×