Innlent

Fólu bæjar­­stjóra að hefja sam­­tal um jarð­­göng til Vest­manna­eyja

Árni Sæberg skrifar
Íris Róbertsdóttir er bæjarstjóri Vestmannaeyja, henni hefur verið falið að hefja samtal við stjórnvöld um jarðgangagerð milli Eyja og meginlandsins.
Íris Róbertsdóttir er bæjarstjóri Vestmannaeyja, henni hefur verið falið að hefja samtal við stjórnvöld um jarðgangagerð milli Eyja og meginlandsins. Vísir/Jóhann

Á fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar samþykkti bæjarstjórn tillögu þess efnis að bæjarstjóra og bæjarstjórn yrði falið að hefja samtal við stjórnvöld um að kanna fýsileika á gerð jarðgangna milli lands og Eyja.

Njáll Ragnarsson, bæjarfulltrúi E lista lagði tillögun fram en hún felur í sér að gagna verði aflað sem þegar liggja fyrir varðandi rannsóknir á jarðlögum og þeim lokið. Einnig að uppfæra gögn sem þegar eru til um þjóðhagslegan ávinning af slíkri framkvæmd.

Í greinargerð með tillögu Njáls segir að lengi hafi verið rætt um möguleikann á jarðgöngum milli lands og Vestmannaeyja og að á síðasta ári hafi verið lögð fyrir Alþingi þingsályktunartillaga um rannsóknir á jarðlögum milli Heimaeyjar og Kross í Landeyjum með tilliti til fýsileika jarðgangna á milli lands og Eyja.

Þar segir að forkönnun hafi verið unnin árið 2000 og ýmsir möguleikar skoðaðir, þar á meða flotgöng og botngöng. Rannsóknir á jarðlögum hafi aftur á móti ekki verið kláraðar til fulls og því mikilvægt að halda verkefninu áfram þannig að úr því verði skorið hvort mögulegt sé að koma á vegtengingu milli lands og Eyja.

Göng gætu verið þjóðhagslega ábátasöm

Þá er vísað til meistararitgerðar Víðis Þorvarðarsonar en hann gerði kostnaðar- og ábatagreiningu á jarðgöngum milli lands og Vestmannaeyja. Þar kemur fram að þjóðhagslegur ábati af Vestmannaeyjagöngum geti verið um 95 milljarðar króna.

„Ekki þarf að fjölyrða um sparnað sem fælist í gerð jarðgangna en sem dæmi má nefna að rekstur Herjólfs er á ári um 650 milljónir, dýpkun Landeyjahafnar kostar um 400 milljónir á ári og nýtt skip, sem endurnýja þarf á 10-15 ára fresti kostar um 5 milljarða. Þá er ljóst að samfélagslegur kostnaður vegna frátafa í siglingum til Landeyjahafnar er gríðarlegur ár hvert,“ segir í greinargerð.

Tillagan var samþykkt með níu samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa.

Fundargerð fyrsta fundar nýrrar bæjarstjórnar Vestmannaeyja má lesa hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×