Fótbolti

Þrír Blikar og Víkingur til San Marínó en þrír fá hvíld

Sindri Sverrisson skrifar
Alfons Sampsted til varnar í leiknum gegn Albaníu í gærkvöld. Hann fer ekki til San Marínó.
Alfons Sampsted til varnar í leiknum gegn Albaníu í gærkvöld. Hann fer ekki til San Marínó. vísir/Diego

Fjórar breytingar hafa verið gerðar á karlalandsliði Íslands í fótbolta fyrir vináttulandsleikinn ytra gegn San Marínó á fimmtudaginn.

Eftir að hafa spilað útileik gegn Ísrael og svo heimaleik gegn Albaníu í gær fá þrír leikmenn nú hvíld hér á Íslandi fram að heimaleiknum við Ísrael í Þjóðadeildinni 13. júní. Það verður síðasti leikurinn í þessari fjögurra leikja törn landsliðsins.

Þeir Birkir Bjarnason, Hörður Björgvin Magnússon og Alfons Sampsted ferðast ekki til San Marínó. Þá færist Bjarki Steinn Bjarkason úr A-landsliðinu í U21-landsliðið sem er allt í einu komið í bullandi séns á að ná inn í umspil um sæti í lokakeppni EM.

Inn í A-landsliðshópinn koma þrír leikmenn Breiðabliks, sem unnið hafa alla sína leiki í sumar, og einn leikmaður Víkings. Þetta eru þeir Jason Daði Svanþórsson, Damir Muminovic, Höskuldur Gunnlaugsson og Júlíus Magnússon.

Höskuldur Gunnlaugsson og Damir Muminovic koma inn í landsliðshópinn.VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari hafði í hyggju að gera fleiri breytingar fyrir leikinn við San Marínó og nýta leikmenn úr U21-landsliðinu en hvíla A-landsliðsmenn fyrir leikinn gegn Ísrael.

Hins vegar urðu nokkuð óvænt úrslit í riðli U21-landsliðsins í undankeppni EM í gær þegar Kýpur vann Grikkland, 3-0, og þar með á Ísland góða möguleika á að ná 2. sæti í sínum riðli og komast þannig í umspil um sæti á EM. 

U21-landsliðið mætir Hvíta-Rússlandi í Víkinni á á morgun klukkan 18 og svo Kýpur á sama stað á laugardagskvöld klukkan 19:15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×