Fótbolti

„Þetta er leikur sem við eigum að vinna“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arnór Sigurðsson segir að Ísland eigi að vinna Albaníu á heimavelli.
Arnór Sigurðsson segir að Ísland eigi að vinna Albaníu á heimavelli. Vísir/Diego

Arnór Sigurðsson var öflugur í liði Íslands er það gerði 1-1 jafntefli við Albaníu í Þjóðadeildinni á Laugardalsvelli í kvöld. Arnór segir Ísland eiga að gera kröfu á sigur í svona leik.

„Þetta er svekkjandi að ná ekki að klára þetta. Mér fannst við koma vel inn í seinni hálfleikinn, fyrri hálfleikurinn var kannski kaflaskiptur, þar sem við náðum ekki alveg að spila þann leik sem við vildum spila. Við fáum, og ég fæ, fín færi í fyrri hálfleik og við komumst í fínar stöður í seinni, svo það er svekkjandi að ná ekki að klára þetta.“ sagði Arnór um tilfinninguna eftir leik.

Arnór var þá spurður hvort liðið hefði farið yfir eitthvað sérstakt í hálfleik. Fyrst tilfinningin sé að síðari hálfleikurinn hafi verið töluvert betri en sá fyrri.

„Við vildum pressa þá hærra. Það var líka planið í fyrri en kannski gekk ekki alveg. Við vorum ákveðnari og meðvitaðri um það í seinni og skorum snemma sem gefur okkur helling. Seinni hálfleikurinn mjög góður finnst mér.“

Ísland er með tvö stig eftir tvo leiki í riðli sínum í Þjóðadeildinni. Jafntefli kvöldsins kemur í kjölfarið á 2-2 jafntefli við Ísrael ytra í miðri viku. Hvað vantar upp á svo þrjú stig náist?

„Mér fannst markið sem þeir skora frekar soft. Við þurfum að vera þéttari og þetta á ekki að gerast, það á ekki að koma rebound inn í teig sem við vinnum ekki. Þannig að við þurfum að fara yfir þennan leik. Mér fannst við sýna karakter að koma til baka en við eigum líka að klára svona leiki - heima á móti Albaníu - þetta er leikur sem við eigum að vinna.“ segir Arnór.

Arnór kvaðst að lokum ánægður með stemninguna á vellinum í kvöld. Alltaf sé gott að spila á Laugardalsvelli.

„Það er alltaf gaman að koma og spila á Íslandi, sérstaklega þegar það er stemning. Mér fannst fín stemning í dag og vonandi sjáum við fleiri á móti Ísrael. En það að koma og spila á Laugardalsvelli er alltaf sérstök tilfinning.“


Tengdar fréttir

Einkunnir Íslands: Engar flugeldasýningar

Ísland náði í annað stigið sitt þegar þeir gerðu jafntefli á móti Albönum fyrr í kvöld á Laugardalsvelli. Leikið var í annarri umferð annars riðils B deildar Þjóðardeildarinnar og enduðu leikar 1-1 í kaflaskiptum leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×