Enski boltinn

Lampard sektaður um tæpar fimm milljónir fyrir ummæli eftir leikinn gegn Liverpool

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Atvikið umdeilda þegar Anthony Gordon féll eftir viðskipti við Joël Matip í viðureign Liverpool og Everton.
Atvikið umdeilda þegar Anthony Gordon féll eftir viðskipti við Joël Matip í viðureign Liverpool og Everton. getty/Tony McArdle

Enska knattspyrnusambandið hefur sektað Frank Lampard, knattspyrnustjóra Everton, fyrir ummæli hans eftir leik gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í apríl.

Lampard var afar ósáttur við að Everton hafi ekki fengið vítaspyrnu þegar Anthony Gordon féll í baráttu við Joël Matip. Eftir leikinn sagði hann að Gordon hefði fengið víti ef hann væri leikmaður Liverpool.

„Þetta var víti en þú færð þau ekki á Anfield. Ef þetta væri Mohamed Salah fyrir framan Kop stúkuna held ég að dómarinn hefði dæmt víti. Það var brotið á Anthony,“ sagði Lampard.

Fyrir þessi ummæli fékk Lampard þrjátíu þúsund punda sekt frá enska knattspyrnusambandinu. Það gera tæplega fimm milljónir íslenskra króna.

Átta mínútum eftir að Gordon féll í vítateig Liverpool kom Andy Robertson Liverpool yfir. Divock Origi innsiglaði svo 2-0 sigur Rauða hersins.

Everton endaði í 16. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og bjargaði sér frá falli í næstsíðustu umferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×