Erlent

Nafngreina börnin og kennarana sem voru myrtir í Uvalde: „Ég missti hluta af hjarta mínu“

Kjartan Kjartansson skrifar
Esmeralda Bravo heldur grátandi á mynd af barnabarni sínu, Nevaeh, á bænastund um börnin nítján og kennarana tvo sem voru myrtir í Uvalde í síðustu viku.
Esmeralda Bravo heldur grátandi á mynd af barnabarni sínu, Nevaeh, á bænastund um börnin nítján og kennarana tvo sem voru myrtir í Uvalde í síðustu viku. AP/Jae C. Hong

Börnin nítján og kennararnir tveir sem voru myrtir í skotárás í Robb-grunnskólanum í Texas í síðustu viku hafa nú verið nafngreindir. Yngsta barnið var níu ára gamalt en það elsta ellefu ára.

Átján ára gamall byssumaður, vopnaður hríðskotariffli, réðst inn í skólann, lokaði sig inni í kennslustofu og skaut börnin og kennara þeirra til bana á þriðjudag í síðustu viku. Landamæraverðir, sem lögðu lögreglu lið, skutu hann til bana.

Hér á eftir fara nöfn barnanna og kennaranna ásamt stuttum eftirmælum um þau sem AP-fréttastofan tók saman.


Nevaeh Alyssa Bravo (10 ára)

Yvonne White, frænka Nevaeh, segir að nafnið hennar hafi verið himnaríki á ensku, stafað aftur á bak. Hún lýsti Nevaeh og vinkonu hennar, Jailuh Silguero, sem var einnig myrt í skólanum sem „englunum okkar“.


Jacklyn Cazares (9 ára)

Faðir Jacklyn segir að dóttir sín hafi verið manneskja sem hafi verið tilbúin að gera hvað sem er til að hjálpa öðrum. „Hún hafði rödd,“ segir Javier Cazares. „Henni líkaði ekki við hrotta, henni líkaði ekki við að níðst væri á krökkum Hún var full af ást. Hún hafði stórt hjarta.“ Jacklyn og Annabell Rodriguez, sem var einnig myrt, voru þremenningar.


Makeena Lee Elrod (10 ára)

Fjölskylda Makeenu óskaði eftir því að fá að vera í friði. Staðarfjölmiðillinn í Uvalde greindi frá því að í kjölfar skotárásarinnar hafi faðir hennar beðið um að fá að leita hennar á útfararstofu í bænum þar sem hann óttaðist að hún kynni að vera látin.


José Manuel Flores yngri (10 ára)

Foreldrar José sögðu CNN-sjónvarpsstöðinni að hann hefði verið hjálplegur heima fyrir og elskað yngri systkini sín. „Hann var bara mjög góður með börn,“ sagði móðir hans. Faðir hans sagði að Jose hefði elskað hafnabolta og tölvuleiki og alltaf verið uppfullur af orku. Á mynd sem var tekinn fyrr um daginn sem skotárásin var gerð sást hann brosandi með viðurkenningarskjal sem hann hlaut fyrir námsárangur.


Eliahna Garcia (10 ára)

Ættingjar Eliöhnu minnast ástar hennar á fjölskyldunni. „Hún var mjög glaðlynd og mannblendin,“ sagði Siria Arizmendi, frænka hennar og kennari við annan grunnskóla í nágrenninu. „Hún naut þess að dansa og stunda íþróttir. Hún unni fjölskyldunni mikið og naut þess að vera með henni.“

Eliahna García var mikið fyrir íþróttir og samveru með fjölskyldunni.AP/Siria Arizmendi

Irma Garcia (48 ára)

Irma var að ljúka 23. skólaári sínu sem kennari við Robb-grunnskólann. Hún var gift Joe, eiginmanni sínum, í aldarfjórðung og saman áttu þau fjögur börn. Nemendum sínum sagði Irma að hún elskaði að grilla, hlusta á tónlist og ferðast um landið með eiginmanni sínum. Hann lést úr hjartaáfalli á fimmtudag. Ættingjar þeirra sögðu hann hafa látist úr harmi.


Uziyah Garcia (10 ára)

Afi Uziyah lýsir honum sem „ljúfasta dreng sem hann hefði nokkru sinni þekkt.“ Hann hafi verið góður í ruðningi sem þeir hafi æft saman síðast þegar þeir hittust í vorhléi í skólanum. „Það voru ákveðnar leikfléttur sem ég kallaði upp sem hann mundi og gat gert nákvæmlega eins og við æfðum,“ segir Manny Renfro.

Uziyah Garcia var tíu ára þegar byssumaður skaut hann og átján skólasystkini hans til bana.AP/Manny Renfro

Amerie Jo Garza (10 ára)

Amerie naut þess að mála, teikna og leira. „Hún var mjög skapandi. Hún var barnið mitt. Í hvert skipti sem hún sá blóm teiknaði hún þau,“ segir Dora Mendoza, amma hennar. Angel Garza, faðir Amerie, segir að hún hafi geislað af gleði þegar hún fékk snjallsíma í tíu ára afmælisgjöf. Vinir Amerie sögðu honum að hún hefði reynt að hringja í lögregluna úr símanum áður en hún var skotin til bana.


Xavier López (10 ára)

Xavier beið sumarsins með óþreyju en hann ætlaði að nýta það til að synda. „Hann var bara ástríkur...lítill drengur, bara að njóta lífsins, grunlaus um að þessi harmleikur ætti eftir að eiga sér stað,“ segir Liza Garza, frænka hans. „Hann var mjög glaðvær, naut þess að dansa með bræðrum sínum og móður. Þetta hefur tekið á okkur öll.“


Jayce Carmelo Luevanos (10 ára)

Afi Jayce segir hann hafa grátbeðið um að fá að fara með ömmu sinni sem fylgdi leikskólabekk langömmubarns þeirra í dýragarðinn í San Antonio daginn sem skotárásin var gerð. Fjölskyldan sagði honum hins vegar að það væri ekkert vit í að sleppa skóladegi svo skömmu fyrir skólaslit. Jayce kunni líka vel við sig í skólanum. „Þess vegna er konan mín svo sár, því hann vildi fara með til San Antonio,“ sagði Carmelo Quiroz við USA Today. „Hann var svo leiður að komast ekki með. Kannski væri hann hér ef hann hefði farið með.“ Frænka hans Jailah Silguero féll einnig í árásinni.


Tess Mata (10 ára)

Systir Tess sagði Washington Post að hún hefði notið þess að horfa á dansmyndbönd á samfélagsmiðlinum Tiktok, tónlistarkonuna Ariönu Grande, hafnaboltaliðið Houston Astros og að krulla hárið sitt.


Maranda Mathis (11 ára)

Móðir náinnar vinkonu Maröndu lýsir henni sem „mjög ástríkri og ræðinni“. Hún sagði Austin American-Statesman að þær dóttir hennar hafi verið saman í bekk og að Maranda hafi beðið hana um að laga á sér hárið eins og dóttir hennar.


Eva Mireles (44 ára)

Á vefsíðu skólans sagði Eva að hún hefði kennt í sautján ár. Hún naut þess að hlaupa og ganga á fjöll. Hún og eiginmaður hennar, lögreglumaður hjá skólaumdæminu, áttu dóttur á fullorðnisaldri og þrjú gæludýr.

Kross til minningar um Evu Mireles og nemendur hennar við Robb-grunnskólann.AP/Dario Lopez-Mills

Alithia Ramirez (10 ára)

Alithia naut þess að spila fótbolta og sérstaklega að teikna. Mynd sem faðir hennar birti af henni á samfélagsmiðli að fagna því að vera orðin tíu ára hefur verið dreift víða. Hann birti sömu mynd á þriðjudag en á henni var Alithia með vængi engils.


Annabell Rodriguez (10 ára)

Frænka Annabellu sagði New York Times að hún hefði verið heiðursnemandi og náin Jacklyn Cazares, frænku sinni, sem var einnig myrt í skólanum.


Maite Rodriguez (10 ára)

Maite átti erfitt uppdráttar þegar kennsla fór fram í gegnum fjarfundarbúnað í kórónuveirufaraldrinum. Eftir það náði hún prýðiseinkunnum og hlaut viðurkenningu í skólanum á þriðjudag, að sögn Önu Rodriguez, móður hennar. Hún var sérstaklega hrifin af íþróttum. Eftir að hún var myrt sendi kennarinn hennar móður hennar skilaboð þar sem hann sagði að Maite hafi haft mikið keppnisskap í sparkleik og hlaupið hraðar en allir strákarnir. Móðir hennar lýsir dóttur sinni sem „einbeittri, með keppnisskap, gáfaðri, snjallri, fallegri og hamingjusamri.“ Maite vildi verða sjávarlíffræðingur og lýsti áhuga á háskólanámi.


Alexandria „Lexi“ Rubio (10 ára)

Kimberly Rubio, móðir Lexi, skrifaði á Facebook að dóttir sín hefði hlotið viðurkenningu fyrir hæstu einkunn í öllum fögum og fyrir að vera góður borgari við athöfn sem skólinn hélt skömmu áður en árásin var gerð. Hún spilaði hafnabolta og körfubolta og langaði til að verða lögfræðingur. Felix Rubio, faðir hennar, var á meðal lögreglumannanna frá Uvalde-sýslu sem voru sendir að skólanum vegna árásarinnar.


Vincent Salazar með dóttur sinni Laylu sem var myrt í Robb-grunnskólanum í Uvalde.AP/Vincent Salazar

Layla Salazar (11 ára)

Faðir Layla segir að hún hafi haft unun af því að hlaupa, synda, dansa við Tiktok-myndbönd og spila tölvuleiki eins og Minecraft og Roblox með vinum sínum. Hún hafi unnið öll hlaupin sem hún tók þátt í á síðustu þremur frjálsíþróttamótum skólans. Á leiðinni í skólann hlustuðu þau alltaf á „Sweet Child O'Mine“ með hljómsveitinni Guns N'Roses og sungu saman með því.


Jailah Nicole Silguero (10 ára)

Móðir Jailuh sagði Univision-sjónvarpsstöðinni að dóttir hennar hefði ekki viljað mæta í skólann daginn sem skotárásin var gerð. Hún sagðist telja að hún hefði ef til vill fundið á sér að eitthvað ætti eftir að gerast. Jailah og Jayce Luevanos, frænka hennar, létu lífið í skólastofunni.


Eliahana Cruz Torres (10 ára)

Staðarsjónvarpsstöð sagði að Eliahana hafi átt að spila síðasta hafnaboltaleik tímabilsins daginn sem hún var myrt. Liðsfélagar hennar krupu á kné á þagnarstund til að minnast hennar og annarra fórnarlamba árásarinnar.


Rojelio Torres (10 ára)

Evadulia Orta, móðir Rojelio, sagði ABC-sjónvarpsstöðinni að sonur hennar hafi verið klárt og ástríkt barn. „Ég missti hluta af hjarta mínu,“ sagði hún.


Tengdar fréttir

Makaði blóði vinkonu sinnar á sig og þóttist vera dáin

Ellefu ára stúlka sem lifði fjöldamorðið í Robb-grunnskólanum í Uvalde í Texas af makaði blóði úr vinkonu sinni á sig og þóttist vera dáin í tæpa klukkustund. Miah Cerrillo, sagði fréttakonu CNN frá upplifun sinni af ódæðinu og því hvernig árásarmaðurinn myrti kennara hennar og vini.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.