Fótbolti

Valgeir og félagar á toppnum eftir ótrúlegan sigur í Íslendingaslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Valgeir Lunddal lagði upp í dag.
Valgeir Lunddal lagði upp í dag. Göteborgs-Posten

Valgeir Lunddal Friðriksson og félagar hans í Häcken eru á toppnum í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta eftir 4-3 sigur gegn Aroni Bjarnasyni og félögum hans í Sirius. Heimamenn í Häcken léku manni færri stóran hluta síðari hálfleiks, en náðu að kreista fram sigur.

Heimamenn í Häcken byrjuðu af miklum krafti og voru komnir í 2-0 eftir aðeins 18 mínútna leik.

Valgeir Lunddal hóf leik á varamannabekk Häcken, en Aron var í byrjunarliði Sirius og það var hann sem minnkaði muninn fyrir gestina eftir tæplega hálftíma leik.

Staðan var því 2-1 í hálfleik, heimamönnum í vil. Snemma í síðari hálfleik urðu heimamenn þó fyrir áfalli þegar markvörður liðsins fékk að líta beint rautt spjald og Valgeir og félagar þurftu því að leika manni færri það sem eftir lifði leiks.

Gestirnir nýttu sér liðsmuninn og jöfnuðu metin þegar tæplega stundarfjórðungur var til leiksloka og við tóku ótrúlegar lokamínútur.

Heimamenn náðu forystunni á ný á 86. mínútu, en gestirnir jöfnuðu metin þegar tæplega fimm mínútur voru komnar fra yfir venjulegan leiktíma.

Tíu leikmenn Häcken játuðu sig þó ekki sigraða og þeir laumuðu inn sigurmarki strax í kjölfarið og lönduðu að lokum ótrúlegum 4-3 sigri.

Häcken trónir á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar eftir sigurinn með 23 stig þegar liðið hefur leikið tíu leiki. Sirius situr hins vegar í tíunda sæti deildarinnar með 14 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×