Erlent

Á­kæra ekki lög­reglu­menn sem klúðruðu máli Nassar

Kjartan Kjartansson skrifar
Larry Nassar misnotaði gríðarlegan fjölda fimleikastúlkna undir því yfirskini að ofbeldið væri læknismeðferð, bæði hjá Ríkisháskólanum í Michigan og hjá bandaríska fimleikasambandinu.
Larry Nassar misnotaði gríðarlegan fjölda fimleikastúlkna undir því yfirskini að ofbeldið væri læknismeðferð, bæði hjá Ríkisháskólanum í Michigan og hjá bandaríska fimleikasambandinu. Vísir/EPA

Bandaríska dómsmálaráðuneytið ætlar ekki að ákæra alríkislögreglumenn sem eru sakaðir um að hafa klúðrað rannsókn á stórfelldum kynferðisbrotum fyrrverandi læknis bandaríska fimleikalandsliðsins.

Fleiri en 330 konur hafa sakað Larry Nassar, fyrrverandi lækni við Ríkisháskólann í Michigan og bandaríska fimleikalandsliðsins, um kynferðisbrot. Hann afplánar nú ígildi lífstíðardóms eftir að hann var sakfelldur fyrir kynferðisofbeldi og vörslu barnakláms.

Innri endurskoðandi dómsmálaráðuneytisins komst að þeirri niðurstöðu í fyrra að alríkislögreglan FBI hefði ekki rannsakað nægilega ásakanir á hendur Nassar þegar þær komu fyrst fram. Mistökin hafi gert Nassar kleift að brjóta á um sjötíu stúlkum til viðbótar áður en yfirvöld í Michigan handtóku hann loksins. Tveir alríkislögreglumenn lugu einnig að rannsakendum til að hylma yfir mistök sín.

Dómsmálaráðuneytið hafði áður ákveðið að ákæra ekki tvo fyrrverandi alríkislögreglumenn fyrir afglöp þeirra en ákvað að taka málið upp aftur í ljósi nýrra sönnunargagna, að sögn Washington Post. Þau breyttu þó ekki fyrri niðurstöðu ráðuneytisins. Í yfirlýsingu sagði ráðuneytið að niðurstaðan þýddi ekki að vel hefði verið staðið að rannsókninni á Nassar eða að framferði fulltrúanna hefði verið eðlilegt.

John Manly, lögmaður margra fórnarlamba Nassar, sagði ákvörðun ráðuneytisins óskiljanlega. Alríkislögreglumennirnir hefðu rofið embættiseið sinn og hylmt yfir versta kynferðisbrotamál í sögu íþróttaheimsins.

Simone Biles, besta fimleikakona í heimi og eitt fórnarlamba Nassar, lýsti ákvörðuninni sem „sturlaðri“ á Twitter.

„Og fólk veltir fyrir sér hvers vegna konur/karlar stíga ekki fram, vegna þess að réttlætinu er aldrei fullnægt,“ tísti hún.

Ræddi við forseta fimleikasambandsins um starf

Eftir að skrifstofa FBI í Indianapolis, fékk ásakanir á hendur Nassar á sitt borð var ákveðið að láta svæðisskrifstofu í Lansing í Michigan sjá um málið. Engin gögn fundust þó um að það hefði í raun verið gert. Þá lét FBI lögregluyfirvöld í Michigan ekki vita af mögulegum brotum Nassar.

Rannsókn endurskoðandans leiddi einnig í ljós að Jay Abbott, yfirmaður skrifstofu FBI í Indianapolis, hefði rætt við Stephen Penny, þáverandi forseta bandaríska fimleikasambandsins, um að útvega Abbott starf fyrir ólympíunefnd Bandaríkjanna á sama tíma og FBI rannsakaði ásakanirnar á hendur Nassar árið 2015. 

Abbott fékk ekki starfið en laug síðar að rannsakendum að hann hefði aldrei sótt um það.

Fréttin hefur verið uppfærð með viðbrögðum Simone Biles.


Tengdar fréttir

380 milljónir dala í bætur til fórnar­lamba Larrys Nassar

Bandaríska fimleikasambandið hefur komist að samkomulagi við nokkur hundruð kvenna sem misnotaðar voru af Larry Nassar, lækni sambandsins, um greiðslu alls 380 milljóna dala, um 50 milljarða króna, í skaðabætur.

FBI-fulltrúar sem aðhöfðust ekkert vegna Nassar gætu verið ákærðir

Bandaríska dómsmálaráðuneytið fer nú yfir ákvörðun sína um að ákæra ekki fulltrúa alríkislögreglunnar FBI sem létu hjá liggja að rannsaka ásakanir á hendur Larry Nassar, lækni bandaríska fimleikalandsliðsins. FBI hefur sætt harðri gagnrýni fyrir meðferð sína á málinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×