Íslenski boltinn

Uppgjör Stúkunnar á sjöundu umferð Bestu: Vítavarslan gerði útslagið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Árni Snær Ólafsson ver hér vítið frá Andra Rúnari Bjarnasyni.
Árni Snær Ólafsson ver hér vítið frá Andra Rúnari Bjarnasyni. Samsett/S2 Sport

Sjöunda umferð Bestu deildar karla í fótbolta lauk í gær en þrír leikir fóru fram á laugardaginn og aðrir þrír í gær. Stúkan gerði upp umferðina í gær.

Guðmundur Benediktsson og sérfræðingar hans völdu úrvalslið umferðarinnar, besta þjálfara umferðarinnar og besta leikmanninn.

Í úrvalsliðinu eru leikmenn frá átta liðum en Keflavík, Víkingur og Stjarnan eiga öll tvo leikmenn í liðinu. ÍA, ÍBV, Leiknir, Breiðablik og Fram eiga öll einn leikmann í úrvalsliði sjöundu umferðar.

Besti þjálfarinn var valinn Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflvíkingar, en hann stýrði liðinu til 2-1 heimasigur á FH.

Besti leikmaður umferðarinnar var síðan valinn Árni Snær Ólafsson, markvörður Skagamanna. Hann varði vítaspyrnu í uppbótartíma í Eyjum og tryggði Skagaliðinu eitt stig. Hann er fyrsti markvörðurinn sem er valinn bestur hjá Stúkunni í sumar.

„Þetta var mjög jafnt og margir sem gerðu tilkall. Við gefum honum þetta fyrir að taka stigið á 93. mínútu,“ sagði Baldur Sigurðsson, sérfræðingur í Stúkunni og vísaði þar í vítavörslu Árna frá Andra Rúnari Bjarnasyni.

Mark umferðarinnar skoraði síðan hinn nítján ára gamli Stjörnumaður Ísak Andri Sigurgeirsson sem kom Stjörnunni í 1-0 á móti KA fyrir norðan með frábæru marki.

„Þetta var engin spurning. Stórkostlegt mark sem Steinþór (Már Auðunsson, markvörður KA) á ekki möguleika í,“ sagði Guðmundur Benediktsson. „Algjörlega geggjað,“ bætti Baldur við.

Stjörnumenn urðu þarna fyrsta liðið til að vinna KA í Bestu deildinni í sumar.

Það má sjá verðlaunauppgjör Stúkunnar í myndbandinu hér fyrir neðan.

Klippa: Stúkan: Uppgjör sjöundu umferðar Bestu deildar karla



Fleiri fréttir

Sjá meira


×