Erlent

Segir heiminn á vendipunkti

Samúel Karl Ólason skrifar
Vólódímír Selenskí er hann ávarpaði samkomuna í Davos í morgun.
Vólódímír Selenskí er hann ávarpaði samkomuna í Davos í morgun. AP/Markus Schreiber)

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði í dag að það hvort hægt væri að stjórna heiminum með valdbeitingu myndi velta á niðurstöðu stríðsins í Úkraínu. Heimurinn stæði á vendipunkti.

 Hann kallaði eftir hertari refsiaðgerðum gegn Rússlandi vegna innrásarinnar og sagði að Rússar hefðu aldrei gert þessa nýjustu innrás ef þeim hefði verið refsað almennilega fyrir innlimun Krímskaga 2014.

Þetta sagði forsetinn í ávarpi sínu til stjórnmála- og viðskiptaleiðtoga á World Economic Forum í Davos í Sviss í morgun.

„Þetta er stundin þar sem ákveðið er hvort heiminum sé stjórnað með valdi,“ sagði Selenskí. Hann sagði að ef Rússar myndu vinna, væri engin þörf fyrir samkomur eins og þá í Davos.

Forsetinn sagði að Úkraínumenn hefðu þegar sýnt sögulega frammistöðu í vörnum þeirra gegn Rússum.

„Við hlustuðum ekki á þá sem sögðu okkur að við gætum ekki varist í meira en tvo dag. Við höfum stöðvað rússneska herinn, sem var kallaður sá annar stærsti í heiminum,“ sagði Selenskí.

Refsa átti Rússum 2014

Varðandi refsiaðgerðir gegn Rússlandi sagðist Selenskí þakklátur fyrir þann stuðning sem Úkraínumenn hefðu fengið frá því innrásin hófst þann 24. febrúar. Hann hefði þó komið of seint.

Hann velti upp þeirri spurningu hvort Rússar hefðu gert aðra innrás ef heimurinn hefði sýnt sama stuðning og sömu samstöðu strax árið 2014.

„Ég er viss um að svarið sé nei.“

Meðal þess sem hann kallaði eftir, samkvæmt Guardian, er að ríki heims hætti alfarið að kaupa olíu af Rússum og allir rússneskir bankar verði einangraðir frá alþjóðabankakerfinu. Hann kallaði einnig eftir því að viðskiptum við Rússland yrði hætt yfir höfuð og sagði að öll fyrirtæki sem hættu viðskiptum þar væru velkomin í Úkraínu.


Tengdar fréttir

Vaktin: Dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að myrða óbreyttan borgara

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti ávarpaði í dag stjórnmála- og viðskiptaleiðtoga sem hafa safnast saman í Davos. Hinn fjögurra daga World Economic Forum hófst í morgun en þar má gera ráð fyrir að innrás Rússa í Úkraínu verði aðal málið á dagskrá.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.