Erlent

Hét því að Bandaríkin kæmu Taívan til varnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Biden er í opinberri heimsókn í Tókýó í Japan.
Biden er í opinberri heimsókn í Tókýó í Japan. AP/David Mareuil

Joe Biden Bandaríkjaforseti tók af tvímæli um hvort að Bandaríkin kæmu Taívan til aðstoðar hernaðarlega ef Kína réðist á eyjuna. Hvíta húsið segir að engin stefnubreyting felist í yfirlýsingu forsetans.

Ummælin lét Biden falla í opinberri heimsókn í Japan í dag. Undanfarna áratug hefur Bandaríkjastjórn að ásettu ráði ekki sagt ótvírætt hvort hún væri tilbúin að beita valdi til að verja Taívan , að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Biden svaraði játandi þegar fréttamaður spurði hann hvort að Bandaríkin kæmu Taívan til varnar væri ráðist á það.

„Það er skuldbindingin sem við gengumst undir,“ sagði forsetinn.

Reuters segir að þjóðaröryggisráðgjafar bandaríska forsetans hafi verið órólegir í sætum sínum þegar hann svaraði spurningunni. Nokkrir þeirra hafi verið niðurlútir þegar hann virtist lofa Taívan afdráttarlausum stuðningi. Þegar Biden lét svipuð ummæli falla í október var því sums staðar lýst sem axarskafti forsetans en Hvíta húsið hafnaði því að þau mörkuðu nýja stefnu gagnvart Taívan og Kína.

Tók hann fram að hann gerði ekki ráð fyrir að til innrásar kæmi. Stjórnvöld í Beijing líta á Taívan sem hluta af Kína og hefur spenna á milli þeirra og stjórnvalda á Taívan farið vaxandi. Málefni Taívan er einn helsti ásteytingarsteinninn í samskiptum Kína við Bandaríkin.

Markmið ferðar Biden til Asíu er meðal annars að vinna gegn vaxandi áhrifum Kína. Tilkynnti hann um stofnun nýs efnahagsbandalags við Indland og Kyrrahafsríki sem kemur í staðinn fyrir Kyrrahafsefnahagsbandalagið sem Donald Trump sleit. Þrettán ríki sem saman eiga um 40% af samanlagðri landsframleiðslu heimsins eiga þátt í bandalaginu: Ástralía, Brunei, Indland, Indónesía, Japan, Suður-Kórea, Malasía, Nýja-Sjáland, Filippseyjar, Singapúr, Taíland og Víetnam.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×