Innlent

Grunaður um man­sal og að hafa brotið kyn­ferðis­lega á ungum dreng

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn kom til landsins með drenginn með flugi frá Kaupmannahöfn í lok apríl síðastliðinn.
Maðurinn kom til landsins með drenginn með flugi frá Kaupmannahöfn í lok apríl síðastliðinn. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði síðastliðinn fimmtudag karlmann í vikulangt áframhaldandi gæsluvarðhald vegna gruns um mansal og að hafa brotið kynferðislega á dreng.

Landsréttur staðfesti úrskurðinn fyrr í vikunni, en maðurinn hafði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til dagsins í dag.

Í úrskurðinum kemur fram að lögregla hafi haft afskipti af manninum, sem er erlendur ríkisborgari, þegar hann kom til landsins með flugi frá Kaupmannahöfn 28. apríl síðastliðinn. Með honum var ungur drengur en þeir voru báðir án ferðaskilríkja og óskaði maðurinn eftir alþjóðlegri vernd fyrir hönd hans og drengsins.

Maðurinn sagðist hafa verið á flakki um Evrópu í þrjú ár ásamt barninu. Framvísaði maðurinn pappír sem hann sagði heimila sér að ferðast með barnið. Skjalið er í dómnum hins vegar sagt „ótraust“ og geti sérfræðingar ekkert sagt til um gildi innihaldsins.

Ótrúverðugur og reikull framburður

Framburður mannsins var sagður afar ótrúverðugur og reikull, bæði varðandi fyrri dvöl í Evrópu, ferðaleik og um barnið. Leikur grunur á að brotið hafi verið á barninu kynferðislega og það „beitt vanvirðandi háttsemi“.

Í dómnum segir að rannsókn lögreglu sé í fullum gangi, sé umfangsmikil og unnin í samstarfi við erlend lögregluyfirvöld. Unnið sé að því að staðfesta kennsl og tengsl mannsins við barnið, en uppruni barnsins er sagaður vera óljós.

Ekki gefið réttar skýringar

Í niðurstöðukafla úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness segir að ljóst sé að maðurinn sé undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um háttsemi sem þung fangelsrefsins sé lögð við. Hafi maðurinn jafnframt viðurkennt að hafa upphaflega ekki gefið réttar skýringar á veru sinni með barnið hér á landi. Rétt sé að veita lögreglu ráðrúm til að ljúka rannsókn á málinu og var manninum því gert að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.