Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, gerði níu breytingar á byrjunarliði sínu frá því í bikarúrslitaleiknum þremur dögum áður. Mohamed Salah og Virgil van Dijk voru báðir meiddir og Klopp hvíldi þá Trent Alexander-Arnold, Andrew Robertson og Sadio Mane.
Takumi Minamino og Joel Matip skoruðu mörkin í leiknum og komu sínum mönnum til bjargar eftir að Liverpool lenti undir í upphafi leiks. Minamino byrjaði sinn fyrsta deildarleik síðan í desember 2020 og Harvey Elliott var aðeins í byrjunarliðinu í sjötta skiptið á leiktíðinni.
„Ef ég segi alveg eins og er þá er ég svo ánægður með frammistöðuna og hún snerti mig ef ég er hreinskilinn,“ sagði Jürgen Klopp eftir leikinn.
„Vá, þessir strákar. Þetta er eins og að eiga Ferrari-bíla í bílskúrnum sínum og þegar þú hleypir þeim út þá standa þeir sig svona vel,“ sagði Klopp.
„Ég er ekki viss um hvenær Harvey spilaði síðast, Curtis [Jones], hafði lítið spilað og Minamino. Það er glæpur að hann sé ekki að spila meira,“ sagði Klopp.
„Þetta er mjög erfitt fyrir þessa stráka en hvað sem gerist í ár þá er það þessum strákum að þakka. Þetta er stórbrotinn hópur og þeir sýndu það enn á ný í kvöld,“ sagði Klopp.