Erlent

Rekja eitt af hverjum sex dauðs­föllum í heiminum til mengunar

Kjartan Kjartansson skrifar
Kona heldur fyrir vit sér með vasaklút í mengunarþoku í Teheran, höfuðborg Írans. Ótímabær dauðsföll vegna mengunar eru flest í löndum þar sem þjóðartekjur eða lágar eða í meðallagi í heiminum.
Kona heldur fyrir vit sér með vasaklút í mengunarþoku í Teheran, höfuðborg Írans. Ótímabær dauðsföll vegna mengunar eru flest í löndum þar sem þjóðartekjur eða lágar eða í meðallagi í heiminum. Vísir/EPA

Léleg loftgæði, mengað vatn og eituefnamengun drepur fleiri jarðarbúa árlega en stríð, hryðjuverk, bílslys, malaría, fíkniefni og áfengi. Í nýrri rannsókn eru eitt af hverjum sex dauðsföllum í heiminum rakin til mengunar.

Alls létust níu milljónir manna af völdum mengunar í heiminum árið 2015 samkvæmt grein sem birtist í læknaritinu Lancet Planetary Health. Mengun sé stærsta umhverfisógnin hvað varðar sjúkdóma og ótímabær dauðsföll. Um 90% dauðsfallanna á sér stað í lág- og millitekjulöndum.

Loftmengun er orsök meirihluta dauðsfallanna, alls 6,7 milljóna þeirra. Um 1,4 milljónir manna létust af völdum mengaðs vatns en blýmengun dró rúmlega milljón manna til dauða, að því er segir í frétt Washington Post.

Fjöldi dauðsfalla af völdum mengunar hefur haldið meira eða minna óbreyttur undanfarin fimm ár en orsakirnar eru sagðar hafa breyst. Áður fyrr hafi flest dauðsföll vegna mengunar verið vegna lélegra loftgæða innandyra og á heimilum, fyrst og fremst vegna fíns svifryks frá eldstæðum innandyra. Eins hafi mengað vatn og óhreinsað skólp kostað milljónir mannslífa.

Slíkum dauðsföllum hefur fækkað undanfarin ár þar mörg heimili á Indlandi og í Kína hafa skipt yfir í gas til eldamennsku.

Á hinn bóginn hefur þeim sem látast af völdum bruna á jarðefnaeldsneyti og blýeitrunar fjölgað um 66% á tveimur áratugum.

Í greininni kemur fram að Bandaríkin og mörg Evrópulönd hafi dregið úr fjárhagslegu tapi sem tengist dauðsföllum af völdum mengunar með því að setja reglur um mengun og með því að færa iðnaðarframleiðslu til snauðari landa.

Richard Fuller, aðalhöfundur greinarinnar, segir að dauðsföll vegna mengunar haldi áfram vegna þess hversu litla athygli þau fá.

„Það er ekki mikil hneykslun vegna mengunar jafnvel þó að klárlega sé það gríðarlegt áhyggjuefni að níu milljóni manna deyi á einu ári,“ segir Fuller.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.