Fótbolti

Lyon búið að finna nýja Söru

Sindri Sverrisson skrifar
Sara Däbritz er leikmaður PSG í dag en á leið til Lyon.
Sara Däbritz er leikmaður PSG í dag en á leið til Lyon. Getty/Aurelien Meunier

Franska knattspyrnufélagið Lyon missir Söru Björk Gunnarsdóttur úr sínum röðum í sumar en hefur fundið aðra Söru sem kemur til með að efla liðið á næstu leiktíð.

Samningur Söru Bjarkar við Lyon rennur út í sumar og í gær staðfesti hún við mbl.is að hún myndi ekki gera nýjan samning við félagið.

Önnur Sara, þýska landsliðskonan Sara Däbritz, söðlar hins vegar um í Frakklandi og fer frá PSG til Lyon, samkvæmt franska miðlinum RMC.

Däbritz er frábær, sóknarsinnaður miðjumaður sem skorað hefur átta mörk í 18 deildarleikjum með PSG í vetur og alls ellefu mörk á leiktíðinni.

Hún varð Evrópumeistari með Þýskalandi árið 2013, aðeins átján ára gömul, og Ólympíumeistari árið 2016.

Däbritz meiddist alvarlega í hné og var frá keppni stóran hluta ársins 2020 en hefur snúið jafnvel enn sterkari til baka og varð franskur meistari með PSG í fyrra. Í ár þarf liðið hins vegar að horfa á eftir titlinum til Söru Bjarkar og liðsfélaga hennar í Lyon nema að eitthvað ævintýralegt gerist í síðustu tveimur umferðum leiktíðarinnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.