Fótbolti

Luis Suarez og Paulo Dybala báðir á förum frá sínum félögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez veifar til stuðningsmanna Atletico Madrid á Wanda Metropolitano leikvanginum í gær. Tárin runnu hjá Úrúgvæmanninum.
Luis Suarez veifar til stuðningsmanna Atletico Madrid á Wanda Metropolitano leikvanginum í gær. Tárin runnu hjá Úrúgvæmanninum. Getty/Juan Manuel Serrano Arce

Luis Suarez og Paulo Dybala eru báðir að leita sér að nýjum félögum en þetta var staðfest eftir leiki liða þeirra í gær.

Atletico Madrid tilkynnti að Luis Suarez muni yfirgefa félagið í lok tímabilsins en hann er að klára sitt annað tímabil í Madrid.

Suarez gekk í endurnýjun lífdaga á fyrsta tímabilinu sínu með Atletico eftir að Barcelona lét hann óvænt fara. Suarez skoraði 21 mark á 2020-21 tímabilinu og hjálpaði Atletico að vinna fyrsta spænska meistaratitilinn sinn frá árinu 2014.

Suarez kvaddi stuðningsmenn Atletico með hjartnæmri ræðu eftir leikinn. Hann hefur ekki náð sér á strik á þessu tímabili eins og því fyrra.

Suarez hefur skorað 13 mörk og gefið 3 stoðsendingar í öllum keppnum en spilaði aðeins í samtals átta mínútur í fjórum leikjum Atletico á móti Manchester United og Manchester City í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar.

Paulo Dybala tilkynnti sjálfur um það að hann ætli að yfirgefa Juventus í sumar.

Hinn 28 ára gamli Argentínumaður hefur þótt líklegur til að leita annað eftir tímabilið og nú er það staðfest.

Hann hefur spilað sjö tímabil með liðinu og á þeim tíma er Dybala búinn að skora 115 mörk og vinna tólf titla.

Ólíkt Suarez, sem er kominn á lokakafla ferils síns, þá ætti Dybala að eiga sín bestu ár eftir. Það verður því athyglisvert að sjá hvar hann endar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×