Fótbolti

Fékk gefins bikar sem var næstum því eins stór og hann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lorenzo Insigne þakkar stuðningsmönnum Napoli fyrir eftir síðasta heimaleikinn með félaginu.
Lorenzo Insigne þakkar stuðningsmönnum Napoli fyrir eftir síðasta heimaleikinn með félaginu. Getty/MB Media

Stuðningsmenn Napoli fengu tækifæri til að kveðja mikla goðsögn á Stadio Maradona í gær og eftir leikinn fékk fyrirliði liðsins risabikar í kveðjugjöf.

Lorenzo Insigne spilaði þarna sinn síðasta heimaleik með Napoli en liðið vann þá 3-0 sigur á Genoa í Seríu A. Insigne skoraði annað mark liðsins úr vítaspyrnu.

Þessi dagur snerist mikið um Insigne en fyrir leik gekk hann inn á völlinn með tveimur sonum sínum á meðan bæði liðin stóðu heiðursvörð. Eftir leikinn átti hann erfitt með að halda aftur af tárunum þegar hann gekk heiðurshring á meðan stuðningsmenn Napoli hylltu hann.

Insigne er þrítugur og hefur verið leikmaður Napoli frá 2006 en með aðalliðinu frá 2010. Fyrir utan að fara þrisvar á láni í upphafi ferilsins þá hefur hann spilað með Napili alla tíð.

Þetta er tíunda alvöru tímabil hans með aðalliði Napoli og kappinn hefur skorað 96 mörk í 336 deildarleikjum með liðinu.

Insigne og Napoli náðu ekki saman um nýjan samning og hann tilkynnti síðan að hann væri búinn að gera samning við MLS-liðið Toronto FC í bandaríska fótboltanum.

Eftir leikinn fékk Insigne líka bikar að gjöf. Sá var ekki að minni gerðinni og þar sem Insigne er aðeins 163 sentímetrar á hæð þá var bikarinn næstum því stærri en hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×