Fótbolti

Selfyssingar á toppinn eftir sigur fyrir norðan

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Selfyssingar eiga enn eftir að tapa leik á tímabilinu.
Selfyssingar eiga enn eftir að tapa leik á tímabilinu. Vísir/Hulda Margrét

Selfyssingar tylltu sér á topp Bestu-deildar kvenna í fótbolta með góðum 0-1 sigri gegn Þór/KA á SaltPay-vellinum á Akureyri í dag.

Fyrri hálfleikur var nokkuð bragðdaufur framan af, en eftir því sem líða fór á hálfleikinn fóru gestirnir frá Selfossi að færa sig framar á völlinn. Það skilaði nokkrum ágætis færum fyrir gestina, en ekki tókst þeim að skora og því var enn markalaust þegar flautað var til hálfleiks.

Selfyssingar héldu áfram að pressa á heimakonur í síðari hálfleik, en áttu erfitt með að skapa sér opin marktækifæri. Það dró þó til tíðinda á 75. mínútu þegar Arna Eiríksdóttir braut á Brennu Lovera innan vítateigs.

Brenna fór sjálf á punktinn og skoraði af miklu öryggi framhjá Hörpu Jóhannsdóttur í marki Þórs/KA.

Þetta reyndist eina mark leiksins og gestirnir fögnuðu því góðum 0-1 sigri. Selfyssingar eru eina liðið í deildinni sem enn á eftir að tapa leik og liðið trónir á toppnum með tíu stig eftir fjórar umferðir. Þór/KA situr hins vegar í fimmta sæti deildarinnar með sex stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.