Jens Scheuer, sem hefur stýrt Bayern undanfarin þrjú ár, hættir með liðið eftir þetta tímabil. Hann stýrir Bayern í síðasta sinn þegar liðið mætir Potsdam í lokaumferð þýsku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn.
Scheuer tók við Bayern 2019 og undir hans stjórn varð liðið þýskur meistari í fyrra. Áður stýrði hann Freiburg.
Á tíma Scheuers hjá Bayern sömdu þrír Íslendingar við liðið. Fyrst Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, svo Glódís Perla Viggósdóttir og loks Cecelía Rán Rúnarsdóttir.
Bayern er í 2. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar og endar þar, sama hvernig leikurinn á sunnudaginn fer. Þá komst liðið í undanúrslit þýsku bikarkeppninnar og átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.