Erlent

Þungunar­rofs­frum­varp beið skip­brot í öldunga­deild Banda­ríkja­þings

Kjartan Kjartansson skrifar
Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, ræddi við fréttamenn eftir að öldungadeildin felldi frumvarpið í gær.
Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, ræddi við fréttamenn eftir að öldungadeildin felldi frumvarpið í gær. Vísir/EPA

Öldungadeild Bandaríkjaþings felldi frumvarp demókrata um að binda rétt kvenna til þungunarrofs í alríkislög í gærkvöldi. Fulltrúadeildin samþykkti lögin en allir öldungadeildarþingmenn repúblikana og einn íhaldssamur demókrati greiddu atkvæði gegn frumvarpinu.

Frumvarpið var lagt fram eftir að drög að meirihlutaáliti Hæstaréttar Bandaríkjanna sem myndi afnema stjórnarskrárvarinn rétt kvenna til þungunarrofs láku í fjölmiðla fyrr í þessum mánuði. Verði niðurstaða hæstaréttar í samræmi við drögin væri einstökum ríkjum frjálst að banna eða takmarka verulega aðgang að þungunarrofi.

„Því miður brást öldungadeildin í að koma rétti kvenna til að taka ákvarðanir um eigin líkama til varnar,“ sagði Kamala Harris, varaforseti eftir atkvæðagreiðsluna.

Hefði frumvarpið orðið að lögum hefði það bannað ríkjum að leggja takmarkanir á þungunarrof sem væri ekki læknisfræðilega nauðsynlegar, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Fyrst og fremst hefði það átt við um þungunarrof áður en fóstur er talið lífvænlegt, í kringum 24. viku meðgöngu. 

Repúblikanar sökuðu demókrata um öfgar þar sem frumvarpið hefði einnig bannað ríkjum að banna þungunarrof eftir 24. viku ef læknar telur áframhaldandi meðgöngu ógna lífi eða heilsu konu.

Á sama tíma fá nú drög að frumvörpum um bann eða takmarkanir við þungunarrof á landsvísu aukinn hljómgrunn á meðal repúblikana sem eru líklegir til að taka völdin í báðum deildum þingsins í kosningum í haust.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.