Innlent

Átök um hvort byggja eigi í hrauninu

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Eyjum vill láta kanna hvort íbúar í Vestmannaeyjum vilji láta byggja á hrauntungu við hafnarsvæðið í miðbænum. Arnar Sigurmundsson fyrrverandi viðlagastjóri bæjarins segir það alls ekki ráðlegt.
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Eyjum vill láta kanna hvort íbúar í Vestmannaeyjum vilji láta byggja á hrauntungu við hafnarsvæðið í miðbænum. Arnar Sigurmundsson fyrrverandi viðlagastjóri bæjarins segir það alls ekki ráðlegt. Vísir/Bjarni

Bæjarstjóri Vestmannaeyja segir mikla ásókn í lóðir og því sé verið að kanna möguleika á að fjarlægja hluta af hrauni við hafnarsvæðið og byggja þar. Fyrrverandi framkvæmdastjóri Viðlagasjóðs segir of marga vankanta á hugmyndinni.

Verið er að skoða möguleika á að endurheimta byggingarland sem lenti undir hrauni í Heimeyjargosinu í Vestmannaeyjum 1973. Hraunið stendur nálægt höfninni en það tók á sínum tíma með sér 30-40 hús á svæðinu. 

 Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri Vestmannaeyja segir skorta nýtt byggingarland. 

„Við erum að skoða þetta svæði. Einn þriðji af eyjunni er nýtt hraun og við eigum ekki mikið landsvæði og það er mikil ásókn í lóðir hér niðri í bæ. Við viljum skoða hvort það sé vilji fyrir því að byggja þarna og fá lóðir. Það er þó með því skilyrði að það fari í íbúakosningu fyrst þar sem  bæjarbúar verða spurðir hvort þeir vilji hrófla við hrauninu,“ segir Íris. 

Málið hefur valdið nokkrum titringi í bænum en hópur Eyjamanna hvetur til að mynda bæjarstjórnina til að láta af öllum áformum um að halda áfram að skoða reitinn á fréttavefnum eyjar.net. 

Arnar Sigurmundsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Viðlagasjóðs er alfarið á móti byggingum á reitnum.

„Þetta er ekki pólitískt mál í eðli sínu. Ég held að þetta sé fólk sem búið er að vera skamman tíma í pólitík það getur haft svona hugmyndir. En raunveruleikinn er annar. Þegar spurt er hver á að borga er það sveitarfélagið eða þeir sem fá lóðir og hvað með breytt útlit hérna, mitt svar er nei,“ segir Arnar sem telur einnig of dýrt að gera hraunið tilbúið undir byggingarland. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×