Íslenski boltinn

Framarar mögulega leikið sinn síðasta leik í Safamýri

Sindri Sverrisson skrifar
Framarar gerðu 1-1 jafntefli við Skagamenn í síðasta heimaleik sínum og það gæti hafa verið allra síðasti leikur þeirra í Safamýri.
Framarar gerðu 1-1 jafntefli við Skagamenn í síðasta heimaleik sínum og það gæti hafa verið allra síðasti leikur þeirra í Safamýri. vísir/vilhelm

Víkingar samþykktu beiðni Framara um að víxla á heimaleikjum og því munu liðin mætast í Fossvogi á fimmtudagskvöld, í 5. umferð Bestu deildar karla í fótbolta.

Framarar hafa byrjað Íslandsmótið á sínum gamla heimavelli í Safamýri á meðan að þess er beðið að gervigras verði lagt á nýjan heimavöll þeirra í Úlfarsárdal.

Óvíst er enn hvenær nýi völlurinn verður tilbúinn til notkunar en Daði Guðmundsson, rekstrarstjóri knattspyrnu hjá Fram, sagði við Vísi í morgun að til stæði að framkvæmdir hæfust í dag við lagningu gervigrassins.

Þá þarf að sjá hvernig framkvæmdum vindur fram en næstu heimaleikir karlaliðs Fram eru gegn Leikni í Mjólkurbikarnum 26. maí og svo gegn Val í Bestu deildinni sunnudagskvöldið 29. maí. Kvennalið Fram leikur sinn fyrsta heimaleik á tímabilinu í 2. deildinni gegn ÍA þann 25. maí og sem stendur eru allir þrír leikirnir skráðir í Úlfarsárdal á vef KSÍ.

Framarar, sem leika nú á nýjan leik í efstu deild karla eftir langa bið, hafa fengið tvö stig úr síðustu tveimur leikjum sínum í Bestu deildinni, eftir töp gegn KR og FH í fyrstu tveimur umferðunum. Þeir gerðu 1-1 jafntefli við ÍA í síðasta heimaleik.

Framarar léku síðast í efstu deild árið 2014. Þá léku þeir heimaleiki sína á þjóðarleikvangi Íslendinga, Laugardalsvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×