Erlent

Sonur einræðisherrans gæti unnið stórsigur

Kjartan Kjartansson skrifar
Ferdinand „Bongbong“ Marcos á kjörstað á Filippseyjum í morgun.
Ferdinand „Bongbong“ Marcos á kjörstað á Filippseyjum í morgun. Vísir/EPA

Kosið er til forseta Filippseyja í dag og stefnir í að Ferdinand Marcos yngri, sonur alræmds einræðisherra eyjanna, gæti unnið yfirburðasigur. Búist er við mikilli kjörsókn en ekki er ljóst hvenær endanleg úrslit liggja fyrir.

Skoðanakannanir hafa sýnt Marcos með meira en þrjátíu prósentustiga forskot á næsta keppinaut sinn, Leni Robredo, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Talning hefst um leið og kjörstöðum verður lokað í kvöld og gæti línur skýrst fljótlega eftir það. Endanleg úrslit gætu þó ekki legið fyrir fyrr en eftir nokkra daga líkt og gerðist í kosningunum árið 2016.

Þrjátíu og sex ár eru frá því að Marcos eldri, föður Marcos, var hrakinn úr embætti í fjöldamótmælum almennings. Hann hafði þá ríkt sem einræðisherra í tvo áratugi. Í nærri helming þess tíma giltu herlög í landinu og lét forsetinn handtaka, pynta og myrða fjölda fólks á þeim tíma.

Einnig er kosið til varaforseta, beggja deilda þingsins og þúsunda embætta víðsvegar um eyjaklasann. Varaforsetaefni Marcos er Sara Duterte, dóttir fráfarandi forseta Rodrigo Duterte. Sá hefur háð blóðugt stríð gegn fíkniefnagengjum í forsetatíð sinni sem hefur sætt alþjóðlegri fordæmingu.

Marcos hefur verið gagnrýndur fyrir tilraunir til að hvítþvo ímynd föður síns og fjölskyldu sinnar. Fjölskyldan er talin hafa komið allt að tíu milljörðum dollara af opinberu fé úr landi þegar Marcos eldri hrökklaðist frá völdum. Filippseysk stjórnvöld reyna enn að endurheimta féð.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×