Íslenski boltinn

Víkingar áttu að fá tvö augljós víti í gær: „Þetta er alveg eðlisfræði-vítaspyrna“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Víkingar áttu að fá tvö augljóst víti í Efra-Breiðholtinu í gær en varnarmenn Leiknis sluppu með skrekkinn hjá Þorvaldi Árnasyni dómara.
Víkingar áttu að fá tvö augljóst víti í Efra-Breiðholtinu í gær en varnarmenn Leiknis sluppu með skrekkinn hjá Þorvaldi Árnasyni dómara. S2 Sport

Þorvaldur Árnason sleppti tveimur augljósum vítaspyrnum í leik Leiknis og Víkings í Bestu deildinni í gærkvöldi og Víkingarnir þurftu svo sannarlega á þeim að halda í þessu markalausa jafntefli.

Þorvaldur hefði líka getað dæmt þriðja vítið en það var ekki nærri því eins augljóst og hinar tvær. Stúkan fór yfir þessi brot sem Leiknismenn komust upp með í vítateignum sínum í gær.

„Við skulum kíkja á þessar vítaspyrnur sem Víkingarnir vildu fá í leiknum. Strákar þetta er eins borðleggjandi og það getur orðið,“ sagði Ríkharð Óskar Guðnason, umsjónarmaður Stúkunnar í gær.

Fyrst var farið yfir það þegar Víkingurinn Nikolaj Hansen er á undan í boltann og Viktor Freyr Sigurðsson, markvörður Leiknis, er of seinn og fer í hann.

„Þetta er alveg eðlisfræði-vítaspyrna. Við getum kallað hana það,“ sagði Þorkell Máni Pétursson, sérfræðingur Stúkunnar.

„Þetta er klárt. Þetta er púra víti. Þorvaldur er á fínum stað og það er alveg ótrúlegt að hann flauti ekki,“ sagði Reynir Leósson, hinn sérfræðingur Stúkunnar í gær.

Næst var skoðað þegar Daði Bærings Halldórsson, varnarmaður Leiknis, stígur ofan á ristina á Víkingnum Ara Sigurpálssyni.

„Þetta er púra víti og þetta sést rosalega vel hérna. Hann stígur þarna bara á ristina á honum og þetta er klárt víti,“ sagði Reynir.

Sérfræðingarnir voru ekki eins vissir um þriðju beiðni Víkinga um að fá víti.

„Þetta er aðeins meira spurningamerki,“ sagði Þorkell Máni.

„Mér finnst tvö klár. Þarna gerir hann tilkall til þess að fá víti og hann er vissulega á undan. Hann pikkar í boltann og fær sparkið aftan í sig,“ sagði Reynir.

„Það hefði verið hægt að dæma víti og það hefði ekki verið hægt að segja mikið,“ sagði Þorkell Máni.

Það má sjá þessi þrjú brot í myndbandinu hér fyrir neðan.

Klippa: Stúkan: Vítaspyrnurnar sem Víkingar áttu að fá á móti LeikniFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.